140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli mínu áðan að ég tel að verið sé að setja þetta mál allt saman í mikið uppnám með þeim pólitísku afskiptum sem ég segi að séu af því.

Ég vil líka halda því til haga, frú forseti, að upphaf þessarar rammaáætlunar, allrar þessarar vinnu, eins og kom fram í ræðu Oddnýjar Harðardóttur hér, má rekja til þess að ráðherrar Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir og Finnur Ingólfsson, hrintu þessu verkefni af stað. Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn hafa staðið að baki þessari vinnu alla tíð. Þar af leiðandi er býsna sárt að þurfa að viðurkenna og sjá að það ferli sem var farið af stað og átti að skila núna afkvæmi inn í þingið var á endasprettinum tekið í einhvers konar sérmeðferð hjá hluta þeirra sem eiga að fjalla um málið á þingi. Það kann að vera og er eflaust samkvæmt lögum að þessir ágætu ráðherrar hafi átt að fjalla um þetta mál, en ég hefði haldið í ljósi forsögunnar og málsins alls, eins og fram kom áðan í spurningu hv. þingmanns — það sést þegar lesið er til baka að ekki hefur ríkt algjör lognmolla eða friður um þetta mál. Menn hafa hins vegar einbeitt sér að því að koma því áfram síðustu 12–14 árin.

Þar af leiðandi er mjög óheppilegt að þetta skuli hafa gerst en kannski er hægt að finna einhverjar bjartar hliðar á því að þessi staða er komin upp. Kannski gefur það atvinnuveganefnd færi á að kafa ofan í málið með öðrum hætti en ella hefði verið og ef svo er kann eitthvað gott að koma út úr því.