140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við útskýringar hæstv. starfandi iðnaðarráðherra áðan er nánast óskiljanlegt af hverju málið er ekki fyrr komið inn í þingið og hversu langan tíma það tók hjá ráðherrunum að fara í gegn með það. Ef þessar breytingar eru svona augljósar og tiltölulega einfaldar er það að mínu viti sérkennilegt. Það er mjög erfitt þegar um svona stór mál er að ræða, svo sem þetta mál, sjávarútvegsmálin og stjórnarráðsmálið sem við ræddum í dag, að þau komi fram svo seint sem raun ber vitni. Frá 1. október hefur dagskrá þingsins legið fyrir, allar dagsetningar og allt. Þetta er ekki til að bæta vinnubrögðin. Ég ætla ekkert að vera með neina spádóma um hvort það næst að klára þetta mál eða einhver önnur fyrir þinglok eða ekki, ef maður á að tala af raunsæi verður það frekar erfitt ef þetta mál (Forseti hringir.) á að fá faglega og góða vinnu í nefndinni.