140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið rætt um hvenær hin pólitísku afskipti hófust í þessu vinnuferli. Ég held að ræða hæstv. umhverfisráðherra hafi verið í hæsta máta verulega pólitísk og lýst pólitískum skoðunum og áherslum ríkisstjórnarflokkanna á því hvernig þau ætluðu að setja sitt fingraþrykk á þetta ferli og kannski ekkert óeðlilegt við það en þá er það líka pólitískt plagg.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið pólitískt verk en ekki grundvallað á faglegu verki þegar í upphaflegum faghópi var skipt út fagmanni, Þorsteini Tómassyni, og inn settur framkvæmdastjóri Vinstri grænna á Norðurlandi, manneskja sem ég þekki mjög vel en veit ekki til að sé sérstök fagmanneskja á þessu sviði, þó að hún sé vissulega viðurkenndur umhverfissinni og sumir mundu jafnvel kalla öfgaumhverfissinni, er það ekki pólitískt fingrafar?

Síðan, af því að þetta er stuttur tími, ætla ég að hoppa yfir í allt annað mál og spyrja hæstv. umhverfisráðherra um það. Þegar allir þessir flokkar eru settir í bið, og það er sérstaklega athyglisvert að setja svo margar vatnsaflsvirkjanir í bið þegar við höfum horft á það á undanförnum árum að meira er órannsakað varðandi jarðvarmann en við þekkjum vatnsaflið mjög vel, er mjög undarlegt að enda þetta plagg á einni lítilli virkjun, vatnsaflsvirkjun. Margt af því sem þarf að rannsaka þarfnast fjármagns og til að viðhalda nýtingarleyfunum þurfa menn að borga jafnvel 20 milljónir á ári. Kæmi til greina hjá hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að við breyttum lögunum og settum í gang nýjan biðflokk, nýtingarflokk í bið, sem til að mynda þessar vatnsaflsvirkjanir færu í til þess að fjárfestar mundu frekar vera tilbúnir til að setja fjármuni í rannsóknir sem síðar (Forseti hringir.) gætu skilað okkur einhverjum ávinningi framar, (Forseti hringir.) ekki síst til gagns fyrir komandi kynslóðir?