140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að rammaáætlun er ekki hlaðborð fyrir virkjunarfyrirtækin, rammaáætlun er heldur ekki hlaðborð fyrir þá sem vilja vernda allt sem hægt er að vernda.

Mér fannst mjög sérkennileg, en samt fagna ég því í sjálfu sér, sú yfirlýsing sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og ég þakka ráðherranum fyrir ræðuna. Þar segir hæstv. ráðherra að taka hafi átt sérstaklega tillit til athugasemda sem komu frá þeim sem vildu auka náttúruvernd eða létu sig náttúruvernd varða eins og ráðherrann orðaði það. Það átti að taka sérstaklega tillit til athugasemda þeirra. Það átti sem sagt að taka meira tillit til athugasemda þeirra en hinna sem vilja fara aðrar leiðir og nýta þessa kosti. Þetta er merkileg yfirlýsing. Þetta er sú staðfesting á pólitíkinni í þessu máli sem við höfum reynt að benda á hér á þeim stutta tíma sem við höfum rætt þetta mál.

Auðvitað er málið pólitískt og ekkert annað. Það er bara þannig, (JBjarn: Og á að vera það.) og hv. þm. Jón Bjarnason grípur hér fram í og segir að þetta eigi að vera pólitískt. Þá skulum við bara hafa það þannig, þá er þetta plagg búið að fá þann stimpil á sig sem við héldum alltaf fram, að þetta væri plagg stjórnarflokkanna, pólitísk stefna þeirra. Við verðum bara að fara í gegnum það sem slíkt, það er einfaldlega þannig. En að segja það að einhverjir hafi meira vægi þegar kemur að umsögnum finnst mér gott að hafa fengið á hreint frá hæstv. ráðherra.

Ráðherra talar hér um jafnvægi í umræðunni, talar um nýtingarsinna og að allt landið hafi verið í nýtingarflokki og eitthvað slíkt. Ég þakka ráðherranum fyrir jafnvægið í þeirri ræðu og þeim orðum. Það er líka merkilegt að hugsa til þess að ráðherrann skuli koma fram með þessum hætti og tala alltaf eins og allir aðrir en hæstv. ráðherra eða flokkur hennar vilji sökkva öllu annaðhvort undir vatn eða bora landið út og suður. Þetta er dónaskapur við þá sem hafa í áratugi, og þá stjórnmálaflokkar, beitt sér fyrir náttúruvernd og umhverfisvernd eins og hæstv. ráðherra veit.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar stendur það í lögum sem hér er vitnað til um rammaáætlun að ráðherrum beri að breyta þeim tillögum sem komu frá verkefnisstjórninni?