140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

sameining háskóla.

[10:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það væri áhugavert að halda áfram þeirri umræðu sem hér var hafin eða jafnvel að spyrja hæstv. ráðherra út í fyrirhugaða sameiningu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) en ég ætla að geyma mér það, (Gripið fram í.) ég ætla ekkert að spyrja ráðherrann út í það. Við skulum eiga það inni, það verður alveg örugglega hægt að spyrja um það síðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í umhverfi háskólanna. Ástæðan fyrir því að ég spyr út í það er að í þingsal hafa stundum komið yfirlýsingar um að háskólarnir á Íslandi eigi að vera tveir, í mesta lagi þrír. Ég hef verið mjög áhugasamur um að þeim sem starfa í dag verði tryggt nokkuð mikið sjálfstæði. Mér sýnist að þessar stofnanir nýti vel samstarfsnet háskólanna og mig langar því að kalla eftir áliti hæstv. ráðherra á framtíðarumhverfi háskólanna hvort við sjáum hlutina með svipuðum augum, þ.e. að ekki sé endilega ástæða til að fækka háskólunum niður í tvo heldur þurfi að tryggja samstarf milli þeirra þannig að við fáum faglegri skóla, nýtum hagræðið af samvinnunni þar sem það er hægt.

Ég tel ekki rétt að kenna sauðfjárrækt á Aragötu eða einhvers staðar þar. Ég sé það ekki alveg ganga að fara þá leið. En það kann að vera að hægt sé að hafa samstarf um sauðfjárrækt við ýmsar deildir, til dæmis við deildir Háskóla Íslands eða annarra háskóla.