140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

launajafnrétti.

[10:53]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að taka þetta mál upp. Hann hefur oft gert það áður og við höfum áður unnið saman. Ég held að það hafi verið haustið 2007 frekar en 2008 sem við vorum að endurskoða jafnréttislögin og þar var einmitt sett inn þetta ákvæði sem hv. þingmaður bendir á sem er jafnlaunavottun sem kom meðal annars sem tillaga frá hv. þingmanni.

Ég deili ekki þeirri skoðun að ekkert hafi miðað hér síðan 1975 en það er alveg ljóst að það hefur valdið miklum vonbrigðum hversu stutt við erum komin í ákveðnum þáttum. Þá er ég til dæmis að tala um launajafnréttið. Við settum líka inn í lögin á sínum tíma að það þyrfti að auka fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Þar hefur verulega mikið áunnist hjá ríkinu en það varð svo til þess, af því að það gekk mjög hægt, að menn settu skýrt lagaákvæði að fyrir tiltekinn tíma skyldu menn vera búnir að jafna stöðuna í þessum stjórnum. Þá er ég að tala um fyrirtækin. Ég vona að það gangi eftir.

Það hefur reynst þyngra en reiknað var með að ná fram þessari vottun. Menn vildu hafa þessa vottun löggilta, þetta væri frá vottunarstofu eða ég man ekki hvað það heitir nákvæmlega, og það lá ekki strax ljóst fyrir hvort hún treysti sér til að taka þetta að sér. Það hefur legið fyrir núna um nokkuð langan tíma að svo er, en þá er ferlið mjög langt til að ganga frá því formlega þannig að þarna fari aðili í gegnum sérstaka vottun og getur hlotið gæðastaðfestingu á því að viðkomandi sinni jafnréttismálum.

Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að þetta skipti miklu máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi frumkvæði frá fyrirtækjunum sjálfum, að þau leggi metnað sinn og stolt í að geta með gæðamerkingu sýnt fram á að þau sinni jafnréttismálum. Ég held að við eigum að reyna að fylgja þessu eins og hefur verið. Það er því miður ekki hægt að setja dagsetningu á þetta en það er búið að fylgja því þéttingsfast eftir að ljúka þessu. Það er í ákveðnu ferli en hefur tafist einfaldlega vegna þess að formið er mjög seinvirkt í sambandi við svona formlega löggilta vottun.