140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

launajafnrétti.

[10:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni hvað varðar það að það sem kemur að ofan eða það sem við gefum sem skýr og klár skilyrði um væntingar sé neikvætt. Ég deili alls ekki þeirri skoðun vegna þess að um leið og við tökum afstöðu, t.d. að löggjafarvaldið gefi skýr skilaboð, fylgir fólk almennt með. Þannig er meginreglan.

Það breytir ekki því að löggjafinn verður alltaf að vera í takt við það sem almenn umræða kallar fram og það sem menn vilja fá breytingar á. Ég held að einmitt vegna umræðunnar, m.a. í gegnum jafnréttismálin, hafi viðhorfið breyst og ég veit að fyrirtækin eru þegar farin að kalla eftir því að geta fengið staðfestingu frá opinberum aðilum, formlegum löggildingaraðila, um að þau standi sig í jafnréttismálum. Mjög mörg fyrirtæki hafa þennan metnað.

Það er ekki hægt að nota endalaust þetta að menn eigi alltaf að velja hæfileikaríkasta fólkið þegar við erum að tala um þjóð þar sem eru jafnmargir karlar og konur (Forseti hringir.) og það er alltaf hægt að finna jafnhæfileikaríkt fólk af báðum kynjum. Við eigum ekki að nota þá afsökun í jafnréttisbaráttunni, við eigum að tryggja aðkomu beggja kynja að öllum stjórnum og ákvörðunum (Forseti hringir.) eftir því sem mögulegt er.