140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

þingsályktunartillaga um framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni.

[11:04]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að ræða þá ákvörðun forseta Alþingis að taka ekki á dagskrá tillögu Hreyfingarinnar um framferði kínverskra stjórnvalda gegn Tíbet og fólkinu sem þar býr. Vissulega er það rétt að tillagan kom fram eftir að lokafrestur um framlagningu þingmála var liðinn en það gerðu líka upplýsingar um væntanlega heimsókn forsætisráðherra Kína, en sem kunnugt er er stefna kínverskra stjórnvalda í Tíbet gagnvart íbúunum af sama toga og stefna stjórnvalda var á sínum tíma gagnvart indíánum Norður-Ameríku og stefna stjórnvalda í Suður-Afríku gagnvart stórum meiri hluta þeirrar þjóðar í áratugi.

Til stóð að hæstv. forsætisráðherra, sem er gestgjafi forsætisráðherra Kína, væri hér í fyrirspurnatíma í dag en hún boðaði forföll á síðustu stundu og er því ekki til svara vegna gagnrýni á þessa heimsókn. Mér finnst afleitt að þessi tillaga fékkst ekki samþykkt á dagskrá þingsins af hálfu forseta þess og tillagan fékk heldur engar undirtektir hjá formönnum annarra þingflokka á Alþingi. Ég geri alvarlegar athugasemdir við Alþingi sem starfar með þessum hætti að svona málum (Forseti hringir.) þar sem forsætisráðherra þjóðar sem brýtur svo gróflega gegn mannréttindum á minni hluta tíbesku þjóðarinnar (Forseti hringir.) að Alþingi skuli ekki fá að taka afstöðu til málsins á meðan á heimsókninni stendur.