140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs vil ég færa samstarfsráðherra þakkir fyrir þessa skýrslu og taka upp nokkur atriði við ráðherrann.

Ég hef nýverið flutt á vettvangi forsætisnefndar Norðurlandaráðs tillögu um að nýr norrænn samningur verði gerður um gagnkvæma viðurkenningu á námi á Norðurlöndunum. Ástæða fyrir því er að ýmislegt réttindanám á Íslandi nýtur ekki viðurkenningar annars staðar á Norðurlöndunum. Þannig verða íslenskir rafvirkjar til dæmis fyrir því að geta ekki starfað með fullum réttindum í Noregi vegna þess að starfsnám þeirra er ekki að fullu metið þar.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort þessi efni hafi verið rædd meðal menntamálaráðherra á Norðurlöndunum og hvort ráðherrann hafi afstöðu til þess hvort hér þurfi ekki að gera bragarbót, þannig að við viðurkennum í öllum atriðum það nám sem fram fer á Norðurlöndunum og það sé gilt til réttinda á þeim öllum, sé hluti af hinu almenna atvinnufrelsi á Norðurlöndunum.

Í öðru lagi vil ég að spyrja hæstv. ráðherra eftir stöðu þess máls sem kannski hefur valdið hvað mestum deilum þegar menn sniðganga norræna samninga, en það er brottvísunarmálið í Danmörku. Danir hafa ítrekað vísað norrænum borgurum á að flytja frá landinu og synjað þeim um réttindi sem þeir eiga sannarlega á danskri grund eftir norrænum samningum og gengið þannig klárlega í berhögg við samningana og verið gagnrýndir hart fyrir, bæði í Norðurlandaráði og ýmsum öðrum vettvangi.