140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins skýra eitt því hér er ég með drög að því bréfi sem ég nefndi áðan, sem mér skilst raunar að sé hugsanlega að fara, sé ekki farið. Þar kemur einnig fram í tengslum við brottvísunarmálið að Noregur sem fer núna með formennsku í norrænu ráðherranefndinni mun taka þetta mál sérstaklega upp í ár í sinni formennskutíð, þannig að það liggur fyrir að þessu verður fylgt hart eftir af hálfu Íslands, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs.

Hvað varðar þau mál sem snúa að námsmönnum er rétt að þau enda stundum á gráu svæði. Námsmenn eru einmitt ungt fólk, fólk sem er að eignast börn, er oft í leiguhúsnæði og öðru slíku, og hefur þar af leiðandi þörf fyrir félagslega aðstoð en lendir á gráu svæði, því félagslega kerfið heyrir undir velferðarráðherrana. Því hafa þessi félagslegu aðstoðarmál námsmanna ekki heyrt undir hina norrænu menntamálaráðherra, heldur fremur norrænu félags- og velferðarráðherrana. Síðan koma þau auðvitað líka til kasta okkar samstarfsráðherranna á köflum.

Þetta hefur ekki beinlínis verið til umræðu hjá norrænu menntamálaráðherrunum, en þetta snertir okkur mjög því að við erum auðvitað með svo gríðarlega marga námsmenn sem fara á milli Norðurlandanna, sem er auðvitað mjög jákvætt. Íslenskir námsmenn eru líklega flestir í Danmörku en hafa einnig sótt verulega nám til Noregs og Svíþjóðar og til Finnlands í einhverjum mæli, og þar birtast þessi vandamál. En ég og hæstv. velferðarráðherra höfum átt í miklum samskiptum um þetta. Ég hef auðvitað bæði fengið erindi frá íslensku námsmannahreyfingunni og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis sem eru í samskiptum við einstaklinga sem hafa lent í vandræðum.