140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina, án þess að það sé sérstaklega dregið fram í þeim skýrslum sem koma hér fram, að Íslendingar hafa oft sótt sér undanþáguákvæði eða lengri aðlögunartíma varðandi ýmsa samninga. Þeir hafa þá borið fyrir sig fólksfæðinni, hversu fá við erum. Ég held að þessi sex mánaða biðtími sé einmitt af þeim toga. Ég hef látið skoða það lítillega hvort hægt sé að opna á þetta og hvað það mundi hugsanlega hafa í för með sér. Menn hafa bent á það á móti að hægt sé að kaupa sér tryggingu fyrir þessa fyrstu sex mánuði. Málið hefur ítrekað komið til umræðu án þess að ég hafi gert tillögu um hvernig beri að leysa það.

Ég tel að þetta sé til vansa, ef við erum í samstarfi á Norðurlöndunum eigum við að reyna að tryggja að við séum þar á jafnræðisgrundvelli og reyna að bjóða öðrum upp á sömu kjör hér og við bjóðum Íslendingum. Það er ekkert sem bendir til þess að fólk af Norðurlöndunum flykkist hingað og sæki til okkar sérstaklega þannig að það ætti að vera áhættulítið að samræma það. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við gerum kröfu á hin Norðurlöndin, eins og fram kom fyrr í umræðunni, meðal annars á Dani, að þeir láti af hinum ströngu kröfum sínum þar sem þeir senda fólk heim um leið eða fljótlega eftir að það sækir um bætur. Það er mikilvægt að við séum sjálfum okkur samkvæm og reynum að hafa samvinnu og samráð við Norðurlandaþjóðirnar og bjóðum upp á sambærilegar reglur og þær.

Það hefur ekki verið vandræðalaust. Við þurfum líka að horfast í augu við það í tengslum við alla þessa umræðu að á undanförnum árum hafa ekki bara hin Norðurlöndin tekið upp Evrópusamþykktir, og við líka í gegnum EES-samninginn, heldur hefur líka þrengt að í öllum löndunum. Menn hafa freistast til að fara í sparnaðaraðgerðir og þrengt túlkun ákvæða og samþykkta. Það hefur meðal annars komið fram í mörgum erindum sem borist hafa til velferðarráðuneytisins að túlkunin hefur verið mismunandi eftir svæðum, jafnvel innan einstakra landa eins og hjá Svíþjóð. Komið hefur í ljós að framkvæmdin, meðal annars varðandi fæðingarstyrki, fæðingarorlof og annað, hefur verið með ólíkum hætti eftir því hvar menn búa í landinu. Það er auðvitað óþolandi. Við þurfum að vinna að samræmingu, að ráðherrar og (Forseti hringir.) stjórnvöld í þessum löndum samræmi aðgerðir sínar.