140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hvet til þess að þessi sex mánaða biðtími verði tekinn til endurskoðunar, ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að vekja athygli á því. Það er auðvitað grundvallaratriði að við göngum ekki fram með harðar kröfur í garð annarra ef við erum ekki tilbúin að uppfylla sömu kröfur sjálf. Í fljótu bragði verður ekki betur séð en að hagsmunir okkar séu miklu ríkulegri af því að okkar fólk þurfi ekki að sæta biðtíma í hinum norrænu löndunum en að veita strax aðgang hér fyrir þá sem hingað sækja.

Ég vildi þá í öðru lagi spyrja hæstv. ráðherra um þann hóp sem hann nefnir sem á réttindi til að mynda til örorkulífeyris í fleiri en einu Norðurlandanna. Ég vil spyrja hann um viðbrögð við þeirri beiðni Öryrkjabandalagsins að Tryggingastofnunin hér aðstoði fólk við að sækja réttindi sín á hinum norrænu löndunum og að notandinn fái bætur sínar greiddar á einum stað, þ.e. frá Tryggingastofnun, en hún sæki síðan hlut annarra tryggingastofnana á hinum Norðurlöndunum.

Sömuleiðis spyr ég hæstv. ráðherra hvort einhver umræða hafi verið um það hjá norrænu velferðarráðherrunum að samræma örorkumatið eða starfsgetumatið eftir atvikum, en það hefur mjög verið í deiglunni á öllum Norðurlöndum, hygg ég, hvernig örorka er metin og ekki að ástæðulausu.