140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt það sem hv. þingmaður nefndi er til skoðunar. Það hefur komið fram og ég held að sé sjálfsagt að menn skoði með hvaða hætti hægt er að aðstoða fólk sem er að reyna að sækja rétt sinn í öðrum löndum og samræma það í þeirri stofnun sem heldur utan um lífeyri hjá okkur, sem er Tryggingastofnun ríkisins. Aftur á móti er forsenda þeirrar hugmyndar, sem kom frá Öryrkjabandalaginu, um að bætur séu greiddar út og síðan sé gert upp síðar, auðvitað sú að samkomulag sé á milli Norðurlandanna um að það sé gert með þeim hætti og að menn fari í þá vinnu. Þá þurfa viðkomandi öryrkjar líka að vera meðvitaðir um að auðvitað getur brugðið til beggja vona þannig að menn fái ofgreitt og þurfa þeir þá leiðrétta það í framhaldinu.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á og kemur mjög skýrt fram bæði í athugasemdum frá Öryrkjabandalaginu og í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þessar landamærahindranir, að menn hafa verið að breyta örorkumatinu og farið yfir í starfsgetumat. Þar hafa verið gerðar miklu harðari kröfur um að áður en menn komast á örorkulífeyri sé búið að fullreyna hvort hægt sé að endurhæfa fólk inn á vinnumarkaðinn að nýju. Við erum líka að fara í þá átt en erum ekki komin jafnlangt og sum hin landanna. Þarna hefur orðið ósamræmi á milli. Það sem hefur verið viðurkennt sem örorka hér hefur ef til vill ekki verið viðurkennt sem örorka í öðru landi. Þegar fólk fer á örorku á Íslandi þegar það hefur verið á örorku í einu af hinum Norðurlöndunum hefur það verið með skertar bætur hér vegna þess að reiknað er með að landið sem fólkið bjó í leggi til hinn hluta lífeyrisins.

Það getur verið afar erfið staða fyrir viðkomandi öryrkja að búa kannski við 30–50% örorkubætur, þeir hefðu átt að fá greitt frá hinum löndunum en slík greiðsla kemur ekki.

Við verðum að feta okkur áfram í að reyna að finna lausnir á þessu. Verkefnin eru ærin, þótt almennt gangi þetta mjög vel er líka augljóst að munstrið er flókið þegar menn færa sig á milli landa, bæði innan Skandinavíu og til dæmis milli Íslands og Noregs þar sem annar aðilinn vinnur í Noregi en hinn vinnur heima. Þarna hefur komið upp fjöldi álitamála sem við verðum að vinna úr og leysa í sameiningu.