140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hún er á margan hátt mjög merk, þessi þemaumræða um landamærahindranir eða stjórnsýsluhindranir við að flytja milli Norðurlandanna og starfa eða búa þar. Þetta er í fyrsta skiptið sem við gerum þetta og ég held að það sé mjög jákvætt skref að tengja þjóðþingin betur við það mikla og víðtæka samstarf sem er í gangi á Norðurlöndunum.

Ég nefndi í andsvari við hæstv. menntamálaráðherra að ég hefði sjálf búið í Svíþjóð í þrjú og hálft ár fyrir um 20 árum. Ég bjó þar þegar Svíar gengu í Evrópusambandið. Það varð töluverð umræða í mínu námi úti hvaða áhrif þetta mundi hafa á norrænt samstarf og skrifaði ég af því tilefni lokaritgerð mína í því námskeiði. Í þeirri ritgerð komu fram töluverðar áhyggjur, niðurstaða mín varð sú að ég hafði töluverðar áhyggjur af því hvaða áhrif það mundi hafa að Svíþjóð og Finnland gengju í Evrópusambandið. Ég lagði mikla áherslu á að það væri mjög brýnt, út frá mínu sjónarhorni sem Íslendings og raunar líka fyrir þær þjóðir sem höfðu þá ekki í hyggju að ganga í Evrópusambandið, að viðhalda samstarfinu milli Norðurlandanna.

Þetta er eitt elsta og að mínu mati besta svæðasamstarf í heiminum. Það má benda á að sameiginlegi vinnumarkaðurinn og rétturinn til að ferðast milli Norðurlandanna án vegabréfa nær 50–60 ár aftur. Fyrir þessu fann ég mjög mikið þegar ég flutti sjálf, það var nánast eins og að flytja úr einu sveitarfélagi á Íslandi yfir í annað. Þrátt fyrir að Svíþjóð og Finnland samþykktu að ganga í Evrópusambandið en Norðmenn að standa fyrir utan og starfa áfram innan EFTA hefur það sýnt sig að hin norrænu ríkin hafa líka talið þetta samstarf skipta mjög miklu máli og nú 20 árum seinna er það jafnvel sterkara en það var áður. Ég held að menn geri sér líka grein fyrir mikilvægi þessa samstarfs fyrir alla sem búa á Norðurlöndunum, óháð því hvort þeir eru í Evrópusambandinu eða í EFTA. Það skiptir okkur Íslendinga mjög miklu máli.

Íslenskir ríkisborgarar flytja fyrst og fremst annað á Norðurlöndunum, að vísu að undanförnu sérstaklega til Noregs en Danmörk var lengi vel allra vinsælasti áfangastaður okkar Íslendinga. Í dag búa rúmlega 10 þús. Íslendingar í Danmörku, í Noregi eru um 7 þúsund, önnur 7 þúsund búa í Svíþjóð og þó nokkru færri hins vegar í Finnlandi, rétt rúmlega 200 manns. Þetta eru ríflega 60% allra Íslendinga sem búa erlendis þannig að Íslendingar velja að fara annað á Norðurlöndunum til að fara til náms líkt og ég gerði eða til að vinna, bæði til lengri og skemmri tíma. Það skiptir því mjög miklu máli fyrir okkur að ekki séu hindranir í því að flytja á milli þessara landa.

Ég hef líka upplifað að það skiptir máli fyrir þau okkar sem búa áfram á Íslandi að þeir sem koma síðan aftur koma með nýja þekkingu, nýja lífssýn, miklu betri tungumálakunnáttu og miklu jákvæðara viðhorf gagnvart Norðurlöndunum. Mér hefur fundist mjög áhugavert að heyra að þeir sem hafa ekki búið í Svíþjóð eru oft með mun neikvæðari sýn á það samfélag en ég sjálf og aðrir sem ég þekki sem hafa búið í Svíþjóð eða annars staðar á Norðurlöndunum.

Afstaða okkar framsóknarmanna hefur verið sú að norrænt samstarf og raunar það grannsvæðasamstarf sem tengist því á að skipta mjög miklu máli í utanríkisstefnu landsins. Það hefur verið og er okkar afstaða. Við eigum mjög mikla sameiginlega hagsmuni með þessum nágrannaþjóðum okkar, t.d. hvað varðar nýtingu á náttúruauðlindum, arfleifð okkar, þjóðmenningu og tungumál þannig að við teljum að framtíðarhagsmunir okkar liggi í því að starfa áfram mjög náið með Norðurlöndunum, með þjóðum sem hafa sameiginlega hagsmuni og skilning á sögu okkar og hagsmunum þannig að gott samstarf milli Norðurlandanna og vestnorrænna þjóða er mjög mikilvægt.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson kom aðeins inn á möguleika sem hefur verið ræddur innan Norðurlandaráðsins, um það hvort hægt væri að nota Norðurlandaráðið betur til að samþætta hagsmuni gagnvart öðrum ríkjasamböndum eða samstarfi og öðrum löndum. Hann nefndi líka að hann hefði áhyggjur af að það mundi til dæmis ekki henta varðandi landbúnað.

Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur hins vegar rætt um mikilvægi þess að menn samræmi og vinni saman í löggjöf að skipulagsmálum því að það skiptir máli fyrir fyrirtæki í til dæmis byggingariðnaði að löggjöf sé samræmd. Ég verð að segja að mér finnst mjög áhugavert að skoða hvort það sé möguleiki á að nýta Norðurlandaráðið meira í innleiðingu á EES-tilskipunum þannig að við séum ekki að búa til stjórnsýsluhindranir þegar við innleiðum þær gerðir sem við erum samningsbundin til að gera. Þá bendi ég á að þar sem við erum ekki hluti af Evrópusambandinu erum við ekki samningsbundin, t.d. höfum við haldið ákveðnum atvinnugreinum eða sviðum í samfélagi okkar fyrir utan þær tilskipanir sem Evrópusambandið er að samþykkja. Það ætti að vera hægt að halda því á lofti þó að það væri aukið samstarf í öðrum málaflokkum sem við erum skuldbundin til að innleiða. Ég held að við ættum að vera tiltölulega opin og jákvæð gagnvart því að nýta þennan vettvang sem hefur skipt okkur geysilega miklu máli. Við sáum líka til dæmis í hruninu og eftir hrunið að þetta samstarf við Norðurlöndin gerði það að verkum að þessa þjóðir voru tilbúnar að koma okkur til aðstoðar. Það skiptir verulega miklu máli að við vinnum vel með frændum okkar á Norðurlöndunum.

Það hefur líka verið rætt aðeins um að þetta snúi ekki bara að hindrunum sem íslenskir ríkisborgarar verða fyrir annars staðar á Norðurlöndunum heldur líka að skuldbindingum okkar gagnvart öðrum Norðurlandabúum. Það hefur verið nefnt að eitt af því sem þyrfti að skoða væri möguleiki íbúa annarra þjóða til að sækja í íslenska rannsóknasjóði sem er meðal þess sem fellur undir málaflokk hæstv. menntamálaráðherra. Í tengslum við umræðu um það hvernig við innleiðum ákveðnar reglur gagnvart Evrópusambandinu og líka þau ákvæði sem gilda um jafnræði þegna innan þessa svæðis þarf að velta því upp, t.d. um þessa sex mánuði sem voru nefndir upp á að komast inn í almannatryggingakerfið, hvort það tengist því fyrst og fremst að við værum hugsanlega tilbúin að taka það skref gagnvart öðrum Norðurlandabúum en ekki gagnvart öðrum íbúum EES-svæðisins eða Evrópusambandsins. Þá þurfum við að taka afstöðu til þess hvað sé rétt að gera í þessu og hvað skipti okkur verulega miklu máli. Ég tel mikilvægt fyrir okkur enn á ný að reyna að draga sem mest úr hindrunum. Það kemur oft í bakið á okkur sjálfum, Íslendingum, þegar við flytjum síðan til útlanda ef við erum með svona hindranir hjá okkur.

Ég legg líka áherslu á mikilvægi þess að menntun sé viðurkennd á milli landa, að við séum ekki þar að búa til hindranir með ákveðinni tregðu til að viðurkenna menntun frá öðrum þjóðum. Mér skilst að stærsti hópur erlendra lækna sem starfar í Svíþjóð núna komi frá Íslandi. Þetta eru sem betur fer einstaklingar sem hafa samt valið að búa á Íslandi, sem ég er mjög sátt við, en sækja vinnu til Svíþjóðar. Það er mjög mikilvægt að tryggja að réttindi þeirra séu gild alls staðar á Norðurlöndunum. Það er mjög mikilvægt að tryggja að Norðurlandabúum sem þurfa félagslega aðstoð í öðrum norrænum ríkjum sé ekki vísað úr landi. Þetta eru grunnmannréttindi og ég ítreka að það verður að skoða það að Evrópusambandið og EES-samstarfið komi ekki á nýjum hindrunum. Ég er búin að margítreka það í framsögu minni og andsvörum. Ég held að það sé mjög brýnt, sérstaklega fyrir smáþjóð eins og okkur, að nýta okkur samstarf af þessu tagi vegna þess að þótt við eigum mikið af góðu og vel menntuðu fólki erum við samt töluvert færri (Forseti hringir.) en annars staðar á Norðurlöndunum þannig að þar værum við að bæta við þá þekkingu og þann mannafla sem við höfum með nánu Norðurlandasamstarfi.