140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram í dag og er samræmd á milli þjóðþinga Norðurlandanna, að ræða sérstaklega um þessar mundir landamærahindranir í norrænu samstarfi. Ég á sæti í Norðurlandaráði, gegni formennsku í menningar- og menntamálanefnd ráðsins og langar þess vegna að nota minn tíma til að vekja athygli á málum sem hafa komið til umfjöllunar á vettvangi þeirrar nefndar sérstaklega. Sumt hafa nú þegar ýmsir nefnt sem hafa tekið þátt í þessari umræðu en aldrei er góð vísa of oft kveðin.

Fyrst ætla ég að nefna grundvallarkröfur til starfsmenntunar á Norðurlöndum. Það er staðreynd að staðan þar er þannig í dag að Norðurlandabúum með starfsmenntun er oft neitað um vinnu í norrænum nágrannaríkjum vegna þess að starfsnámi er ólíkt háttað í löndunum. Það þarf stundum lítið til að búa bilið en í öðrum tilvikum er viðkomandi einstaklingi gert að bæta við sig jafnvel heilu námsári í nýja búsetulandinu áður en hann getur hafið störf þar í landi, enda þótt hann hafi starfsmenntun frá sínu landi.

Þetta misræmi hefur síðan gefið tilefni til þess að settar voru reglur um starfsréttindi í löndunum en þær reglur hafa því miður reynst ósveigjanlegar, einkum þegar verkefni koma upp án mikils fyrirvara handan landamæranna. Það hlýtur að vekja athygli að grundvallaratriði eins og meðferð á vatni eða rafmagni, skolpræsum, eldi, einhverju af því tagi, getur verið mjög ólík eftir löndum. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að það verði hafið breitt norrænt samstarf til lengri tíma þar sem markmiðið verði að ná samkomulagi um grundvallarkröfur um þekkingu í allri starfsmenntun á Norðurlöndum þar sem það á við. Slíkt samkomulag mundi eðlilega liðka fyrir fyrirtækjum og einstaklingum og auðvelda þeim að vinna þvert á landamæri hvar sem væri á Norðurlöndunum.

Meðal þess sem flækir málið er að starfsnám er á mismunandi skólastigum í löndunum. Það er ýmist á framhaldsskólastigi eða að loknu stúdentsprófi, sumar starfsgreinar krefjast starfsréttinda í einhverjum landanna en ekki endilega öllum. Það er oft mismunandi hverjir fara með reglugerðarvald og eftirlit á þessu sviði. Það má nefna sem dæmi viðurkenningar á skírteinum iðnaðarmanna í byggingariðnaði sem hér hefur þegar verið nefnt lítillega, en samræming á þessu ætti að þjóna hagsmunum atvinnulífsins. Núverandi ástand getur truflað samkeppni og komið í veg fyrir að starfskraftar frá öðrum norrænum löndum nýtist sem skyldi. Stjórnsýsluhindranir af þessum toga bitna einkum á minni og meðalstórum fyrirtækjum sem eru háð starfsbundnum markaði.

Í öðru lagi vildi ég nefna starfsþjálfun erlendis eða það sem er stundum kallað lærlingastörf eða lærlingastöður en það er ólíkt staðið að þeim málum í norrænu löndunum. Hið sama á við um hlutfall milli bóklegs náms og starfsþjálfunar. Á sænskum vinnumarkaði er ekki gert ráð fyrir lærlingum og þeim eru þar af leiðandi ekki heldur greidd laun. Það er sem sagt gert ráð fyrir því þar að námsfólk fái námsstyrki eða námslán en í Danmörku fá lærlingar hins vegar laun meðan á starfsþjálfun stendur. Núna er unnið að því að koma á fót starfsgreinaráðum með fulltrúum menntastofnana, stéttarfélaga og atvinnurekenda í Svíþjóð og Danmörku, a.m.k. á Eyrarsundssvæðinu, og þeim er ætlað að vinna einhvers konar úttektir og undirbúa samkomulag um hæfniskröfur á þessu svæði og milli landanna sem gæti þá jafnframt verið til eftirbreytni á breiðari grundvelli.

Þriðja málið sem ég mundi vilja nefna er vandamál sem hafa komið upp varðandi námslán og styrki fyrir námsfólk erlendis. Þetta hefur þegar borist í tal í þessari umræðu en þessi sérstaki vettvangur um stjórnsýsluhindranir fór þess á leit við norræna námslána- og styrkjahópinn, sem var sérstakur hópur sem fjallaði um þau mál, að hann ræddi hvað væri hægt að gera fyrir námsfólk sem flust hefur milli Norðurlanda og síðan synjað um námslán eða styrki í öllum norrænu löndunum ef það hyggur á framhaldsnám einhvers staðar á Norðurlöndunum. Nú þegar hefur verið skilað stuttri skriflegri greinargerð um þetta mál og þar kemur meðal annars fram að sá fjöldi fólks sem lendir þannig milli skips og bryggju sé í raun hverfandi lítill en öll norrænu löndin og mörg önnur lönd krefjast búsetu til að sýna fram á tengsl við það land þar sem sótt er um námslán og/eða námsstyrki. Flest löndin krefjast þess að umsækjandi hafi búið í landinu í einhvern tiltekinn tíma, minnst tvö ár á undanförnum fimm, til að eiga rétt á námslánum og/eða styrkjum vegna náms erlendis. Það er talið að þessi regla geti að vísu brotið í bága við löggjöf Evrópusambandsins vegna þess að hún feli í sér óbeina mismunun en eins og við þekkjum eru þrjú lönd nú þegar aðilar að Evrópusambandinu.

Ég veit að þetta mál hefur verið til skoðunar á vettvangi Evrópusambandsins og meðal annars í Hollandi hafa verið gerðar athugasemdir við þessa búsetukröfu en enn liggur ekki fyrir niðurstaða eftir því sem ég best veit um framhaldið þar á. Þrátt fyrir að sá hópur sem verður út undan vegna þessara hindrana sé fámennur er um visst grundvallaratriði að ræða og þess vegna þyrfti Norðurlöndunum öllum að vera umhugað um að allir eigi kost á æðra námi, einnig einstaklingar sem hafa nýtt rétt sinn til frjálsrar farar milli landa.

Fjórða málið sem ég vildi nefna í þessu sambandi varðar höfundarrétt. Það má kannski segja að fátt komi fólki í eins mikið uppnám og truflanir á útsendingum sjónvarps. Meðal annars hefur verið fjallað um þessi mál fyrir Evrópudómstólnum þar sem upp kom mál er varðar bresku knattspyrnuna og enska kráareigendur. Menn geta ímyndað sér hvort það hafi ekki heldur gustað um þegar það mál var til umfjöllunar, en staðreyndin í því máli var sú að úrvalsdeildin í bresku knattspyrnunni fór í mál við enskan kráareiganda sem hafði notað grískt snjallkort og myndlykil til að sýna fótbolta. Kráareigandinn tapaði að vísu málinu þar sem því var haldið fram að um opinbera sýningu hefði verið að ræða en í dómnum er því einnig slegið föstu að óheimilt sé að takmarka sölu á snjallkortum og myndlyklum við íbúa eins ákveðins lands. Þetta er því nokkuð snúið umfjöllunarefni.

Hér eru ýmis mál á vettvangi menningar- og menntamálasamstarfsins sem þyrfti að taka á og þó að þau séu kannski meiri í ýmsum öðrum málaflokkum er þetta engu að síður tilefni til að fara rækilega yfir og ræða hvað við getum gert til að bæta úr.

Ég vil að lokum nefna tungumálið. Í mismunandi tungumálum geta líka falist ákveðnar hindranir á samskiptum á milli Norðurlandanna. Í formennskuáætlun Noregs í norrænu ráðherranefndinni árið 2012 er sérstaklega fjallað um að gera tungumálin að viðfangsefni og ég reikna með að talsvert verði unnið að því og það hefur líka verið rætt á fundum menningar- og menntamálanefndar Norðurlandaráðs. Í Ríkisútvarpinu hefur undanfarna daga verið sérstök umfjöllun um norrænu tungumálin, stöðu þeirra og þær hindranir sem þau geta haft í för með sér en líka að almenn tungumálaþekking virðist fara mjög dvínandi, þ.e. þekking manna á öðrum Norðurlandamálum. Það er áhyggjuefni sem mér finnst tilefni til að taka til skoðunar á vettvangi Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndanna, jafnvel menntamálaráðherra Norðurlandanna.

Við Íslendingar tókum þá ákvörðun fyrir allnokkrum árum að hafa ekki dönsku lengur fyrsta erlenda tungumálið heldur taka ensku. Ég tel að það hafi verið rök fyrir þeirri breytingu en það breytir ekki því að ég tel jafnframt mikilvægt að við stöndum vel að kennslu í norrænum tungumálum hér á landi. Það sama á við annars staðar á Norðurlöndunum. Þau þurfa líka að standa sig í þessu. Það er oft sagt að Norðmenn, Danir og Svíar geti talað sín í milli á sínum eigin tungumálum en þeir sem þekkja vel til vita að það er oft meira í orði en á borði. Þeir sem eru þjálfaðir í norrænu samstarfi geta gert þetta nokkuð óhindrað en það sama er ekki endilega að segja um allan almenning. Þetta er líka viðfangsefni í þessum löndum, ég tala nú ekki um í Finnlandi og sjálfstjórnarhéruðum eins og Grænlandi. Ég tel að þennan þátt þurfi líka að taka til sérstakrar umfjöllunar og skoðunar og hvet til þess að það verði gert.