140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:46]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er bæði þörf og mikilvæg.

Á umliðnum sex áratugum hafa unnist stórir sigrar í því að samhæfa og samstilla löggjöf og réttindi íbúa á Norðurlöndum undir forustu þess merka samstarfs sem hefur þróast milli þjóðþinga landanna innan Norðurlandaráðs. Þetta samstarf hefur verið um margt einstakt á heimsvísu og fyrirmynd í samstarfi þjóða. En þrátt fyrir þann mikla árangur sem samstarfið hefur sannarlega skilað er víða hægt að gera betur. Verkefnin eru ærin sem bíða frekari samráðs og samvinnu Norðurlandanna í síbreytilegum heimi nýrrar tækni, réttindamála og löggjafar, að ekki sé minnst á áhrif löggjafar og regluverks Evrópusambandsins og annars víðtæks samstarfs Evrópuríkja á stöðu og hlutverk einstakra landa og samstarfsins meðal Norðurlandaþjóðanna.

Norðurlandaráð hefur verið mjög meðvitað um þá annmarka sem eru til staðar í réttindamálum og hafa margir valdið stórum hindrunum hvað varðar bæði félagsleg réttindi og atvinnuréttindi og stöðu þeirra íbúa sem í lífi og starfi eiga búsetu, atvinnu eða fjölskyldu milli hinna norrænu landamæra, ef svo má að orði komast, landamæri sem við viljum að séu nánast ósýnileg hvað réttindi og löggjöf snertir. Því miður eru þar enn nokkrir annmarkar sem brýnt er að vinna bug á með samstilltu átaki.

Til að fylgja þeim vilja eftir var umræða um stjórnsýsluhindranir sett sérstaklega á dagskrá þings Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember á síðastliðnu ári. Þar fór fram bæði áhugaverð og hvetjandi umræða um að taka á þessum málum og vilji þingmanna var skýr frá öllum þjóðþingum og öllum flokkahópum. Til að fylgja málum enn frekar eftir var síðan samþykkt endurskoðuð samstarfsáætlun Norðurlandanna á löggjafarsviði og jafnframt samþykkt að öll norrænu þjóðþingin tækju upp umræðu á sama tíma nú í apríl um þessi brýnu verkefni.

Ég vil nota tækifærið í þeirri umræðu sem nú fer fram hér á hv. Alþingi og benda á nokkur brýn úrlausnarefni sem þjóðþing Norðurlandanna þurfa að sameinast um lausn á hið fyrsta. Ég ætla að einskorða mig við atriðin sem snúa að almannatryggingum, vinnurétti og neytendarétti, en þar er því miður af ýmsu að taka. Í því sambandi vísa ég meðal annars til áskorunar frá norræna verkalýðssambandinu og sambandi norrænu félaganna þar sem hvatt er til þess að öllum stjórnsýsluhindrunum á vinnumarkaði verði rutt úr vegi eigi síðar en á árinu 2014. Ég vil taka heils hugar undir þá áskorun.

Nefna má meðal annars mismunandi rétt til örorkubóta. Ef einstaklingur býr á Íslandi en stundar til dæmis störf í Noregi til einhverra ára er hann tryggður þar sem hann starfar, þ.e. í Noregi. Komi hann aftur til starfa í sínu heimalandi færast tryggingamál hans með honum heim. Nú vill svo til að viðkomandi missir starfsgetu vegna örorku eða sjúkdóma stuttu eftir að hann kemur heim aftur. Þá er hann í þeirri stöðu að bótaréttur hans er skertur miðað við þann sem starfaði og bjó í sama landi alla tíð. Hér er úrbóta þörf.

Mismunandi lífeyrisréttur stafar meðal annars af skorti á samræmingu lífeyriskerfanna. Þá getur starfstengdur lífeyrir einstaklings sem á starfsævi sinni hefur starfað í fleiri en einu norrænu landi orðið lægri en ef viðkomandi hefði einungis starfað í einu landi. Hér er einnig úrbóta þörf.

Við horfum á hindranir á vinnumarkaði vegna ólíkra menntakerfa og löggildingarkrafna. Á Norðurlöndunum er erfitt fyrir ákveðnar starfsstéttir þar sem löggildingar er krafist að starfa í öðru norrænu landi þrátt fyrir starfsréttinda- og þjónustuskipun Evrópusambandsins um einn samræmdan opinn atvinnumarkað.

Starfsþjálfun gengur ekki milli landa eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi í ræðu sinni áðan. Starfsþjálfun getur ekki farið fram í öðru norrænu landi en viðkomandi á lögheimili í, því samkvæmt vinnumarkaðslöggjöf hinna einstöku landa á starfsþjálfun að fara fram í heimalandinu. Kannski ekki stórmál, en sannarlega stjórnsýsluleg hindrun á vinnumarkaði.

Í neytendamálum er hægt að nefna nokkrar hindranir í stjórnsýslu sem koma sannarlega á óvart á árinu 2012. Skilagjaldakerfi í norrænum löndum og einnig innan ESB eru ólík. Þess vegna er ekki hægt að fá greitt út skilagjald fyrir umbúðir, dósir eða flöskur sem keyptar voru í nágrannalandinu, í heimalandinu. Við þekkjum þetta vandamál sérstaklega í Danmörku.

Póstburðargjöld milli Norðurlandanna eru allt að tvöfalt dýrari en gjöldin innan lands. Þetta hefur meðal annars umtalsverð áhrif á áskriftarverð á blöðum og tímaritum frá öðrum Norðurlöndum.

Almenn skilríki eru ekki samræmd og viðurkennd að fullu milli einstakra landa. Þetta hefur í för með sér takmarkanir og hindranir fyrir einstaklinga sem eru ekki búsettir í viðkomandi landi og vilja nýta sér til dæmis þjónustu pósts, banka og fleiri stofnana.

Einnig eru til staðar í dag talsverðar hindranir varðandi rafræn innkaup á netinu, hvort heldur er fyrir opinbera aðila eða einstaklinga, þar sem hvorki kerfin sem netverslun byggir á eru samræmd milli landanna né löggjöfin sem starfað er eftir. Hér er sannarlega úrbóta þörf.

Þetta eru nokkur dæmi, langt í frá þau stærstu, en dæmi úr hinu daglega lífi og starfi sem hindra eðlileg samskipti í verslun og réttarstöðu borgaranna.

Virðulegi forseti. Til að vinna með skipulegum hætti að þessum fjölmörgu verkefnum lagði þingmannahópur jafnaðarmannaflokkanna fram á nýliðnum vetri tillögu í einum níu liðum um lykiláherslur og lausnir á þessu brýna verkefni. Þar er meðal annars lagt til að norrænu ráðherranefndinni verði falið að forgangsraða mikilvægustu úrlausnarefnum og leiða þau mál til lykta. Samræma eigi allt regluverk varðandi atvinnumarkað og menntamál milli landanna, tryggja að norrænu þjóðþingin vinni markvisst að því að koma úrlausnarmálum til framkvæmda hvert á sínu heimasvæði, taka upp virkara samráð og samvinnu við Evrópusambandið um reglugerðarvinnu og setja niður sérstakan vinnuhóp til að fylgja þessu stóra verkefni eftir af fullum krafti, svo nokkur áhersluatriði séu nefnd.

Vinnan gegn stjórnsýsluhindrunum er mikilvæg og á að vera forgangsverkefni Norðurlandaráðs hverju sinni. Markmiðið er að tryggja samræmdan rétt og fullt frelsi, hvort heldur er einstaklinga eða viðskipta milli allra Norðurlandanna, og uppræta allar þær hindranir sem eru mögulega í vegi okkar. Til að ná því markmiði sem að er stefnt þarf skilning og samstillt átak.

Umræða eins og sú sem fer hér fram í dag er ekki síst til þess að efla skilning og ná víðtækri samstöðu um það átak sem við þurfum að sameinast um. Norðurlöndin hafa sýnt það í verki á umliðnum árum og áratugum hversu þau eru megnug í samstarfi og samvinnu á öllum sviðum. Við þurfum nú að einsetja okkur að gera enn betur. Í þeim efnum er samnorrænn vilji allt sem þarf.