140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:04]
Horfa

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna, Katrínu Jakobsdóttur, fyrir ágæta skýrslu um stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndunum. Eins og komið hefur fram í umræðunum á samstarf Norðurlandanna sér langa sögu og sameiginlegur menningararfur á sér jafnvel enn lengri sögu. Mikilvægi samstarfsins er flestum ljóst. Flæði menntunar og þekkingar er ávinningur allra, samhugur og samkennd milli norrænu þjóðanna er styrkur norræns samstarfs.

Hugsanlega er aukin alþjóðavæðing viss ógn við svo þétt samstarf fárra þjóða, þjóða sem gjarnan er litið til þegar fjallað er um fyrirmynd annarra þjóða, meðal annars í velferðarmálum. Í þeim mögulegu ógnunum geta falist tækifæri til að styrkja og kveða enn skýrar á um mikilvægi uppbyggingar markmiða í samstarfi milli norrænu landanna.

Frú forseti. Okkur er ljóst að sníða þarf af ýmsa vankanta. Vegna sífelldra lagabreytinga í löndunum þarf að standa vaktina ötullega og bregðast fljótt við þeim ólíku hindrunum sem virðast birtast reglulega. Í umræðunni í dag hefur verið drepið á dæmi um slíkar hindranir, varðandi starfsréttindi og réttindi hvað varðar bætur í almannatryggingakerfinu.

Þegar ég og fjölskylda mín bjuggum í Noregi við nám og starf kom okkur á óvart hið jákvæða viðhorf sem við upplifðum í okkar garð af hálfu Norðmanna. Þeir litu á okkur Íslendinga sem sína þjóðbræður, með sömu réttindi og skyldur, en ekki innflytjendur með þeim tækifærum og ógnunum sem þeim fylgja. Í þessu viðhorfi sem virðist ríkjandi á milli íbúa Norðurlandanna felast mikil tækifæri til að ryðja stjórnsýsluhindrunum úr vegi. Stuðningur íbúanna er fyrir hendi og vilji þjóðanna er skýr. Því hljótum við að gera þá kröfu til norrænna stjórnvalda að leysa þessi verkefni í samstarfi og lausnamiðað, hratt og örugglega og standa þannig vörð um sameiginlegan menningararf, norræna samstöðu og samstarf sem eflir möguleika og þekkingu norrænna þjóða.