140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi í upphafi ræðu minnar dæmi um vel heppnuð verkefni þar sem Norðurlöndin hafa tekið höndum saman. Ég nefndi sérstaklega dæmi af menningarsviðinu þar sem ég þekki líklega betur til en á því sem sviði sem við ræðum nú, þ.e. sviði atvinnulífsins, en þar hefur náðst mikill árangur í markaðssetningu á menningu. Ég nefndi hér dæmi um tölvuleikina og það er vaxtarsproti í útflutningi á norrænni tónlist þannig að þar hafa menn séð tækifærin. Það sem vekur athygli mína er að Íslendingar, þrátt fyrir að vera fámenn þjóð í samstarfinu, hafa svo sannarlega ekki borið skarðan hlut frá borði í þessu samstarfi, heldur tvímælalaust náð meiri athygli út á það að taka þátt í norræna samstarfinu. Sérstaða Íslands þar hefur hins vegar um leið komið fram þannig að við höfum ekki verið að fórna neinu í því samhengi, heldur einfaldlega fengið stærri vettvang til að kynna okkar list og menningu.

Ég velti fyrir mér hvaða leiðir hv. þingmaður sér til að miðla þessari reynslu til atvinnulífsins og hvort það sé eitthvað sem hann telur að Norðurlandaráð eða Íslandsdeild Norðurlandaráðs eða samstarfsráðherra eða einhverjir aðrir eigi að gera, og hvernig hægt er að tengja þessa aðila löggjafar- og framkvæmdarvalds annars vegar og viðskiptalífsins hins vegar.