140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við lok umræðunnar um þingsályktunartillögu um Stjórnarráðið sagði hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi felur þessi þingsályktunartillaga það eitt í sér að Alþingi styðji fyrirhugaðar breytingar á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Það er í raun í andstöðu við stjórnarskrána sem segir að forseti ákveði tölu ráðherra og skipti störfum með þeim.“

Þetta eru mjög alvarleg tíðindi. Í fyrsta lagi er þessi tillaga þar með augljóslega orðin óþingtæk. En það sem er alvarlegast er að hér er það að gerast að hæstv. forsætisráðherra leggur fram þingmál sem hún segir sjálf að sé í andstöðu við stjórnarskrána og byggir síðan á lögum sem hæstv. ráðherra samþykkti og hún telur að hafi verið og sé brot á stjórnarskránni.

Ég ætla að segja það að í flestum lýðræðisríkjum væri slík yfirlýsing gjörsamlega óhugsandi komandi frá hæstv. forsætisráðherra. Og forsætisráðherra sem setur sig í slíka stöðu, sem segist í rauninni vera vísvitandi að brjóta stjórnarskrána, hlyti undir öllum venjulegum kringumstæðum að segja af sér sem þingmaður og sem hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra bæri auðvitað, ef hún vildi, (Forseti hringir.) að leggja fram frumvarp til að breyta þessu þar sem þingmálið væri þá í samræmi við stjórnarskrána, en það er ekki gert. (Forseti hringir.) Hæstv. forsætisráðherra fer hér fram með mál sem hún sjálf segir að sé brot á stjórnarskrá Íslands.