140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég tel að það mál sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vakti máls á gæti verið áhugaverð fagleg, lögfræðileg stúdía. Það er rétt að í stjórnarskránni er kveðið á um það að forseti ákveði tölu ráðherra og fjölda ráðuneyta og síðan segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Það hefur verið framkvæmt þannig eins og við þekkjum að það er þá að tilstuðlan ráðherra varðandi Stjórnarráðið af hálfu forsætisráðherra. Í dönsku stjórnarskránni er sambærilegt ákvæði með konung og þess vegna hefur það verið túlkað þannig þar að það er alltaf ríkisstjórn hverju sinni sem ákveður fjölda ráðuneyta og heiti þeirra.

Menn gætu velt því fyrir sér hvort framkvæmdin ætti að vera með sama hætti hér. En nú höfum við áratugalanga reynslu af hinu gagnstæða, fyrst með lögunum um Stjórnarráð Íslands frá árinu 1969 sem voru sett að tilstuðlan þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og síðast þegar stjórnarráðslögunum var breytt, m.a. þegar (Forseti hringir.) hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ef þessi regla ætti við, eins og þingmaðurinn gerir ráð fyrir, (Forseti hringir.) hefðu allar breytingar á stjórnarráðslögunum farið í bága við stjórnarskrána en það er ekki hin stjórnskipulega venja og hefð hér á landi að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar með þeim hætti.