140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

ummæli ráðherra um breytingar á Stjórnarráðinu.

[14:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er verið að ræða hér um form máls en ekki endilega efnislegt innihald eins og ég hef skilið málið. Ég er afar feginn því og upp með mér að hv. þm. Birgir Ármannsson skuli vera sammála því sem ég hafði fram að færa inn í þessa umræðu því að ég held að það byggi á réttum stjórnskipunarlegum skilningi. Menn geta auðvitað haft pólitíska tilburði uppi í málinu eins og hér er gert en ég tel að það þingmál sem hér hefur verið lagt fram og er komið til nefndar, eins og hæstv. forseti gat um, er þingsályktunartillaga. Það er tillaga um að Alþingi lýsi yfir ákveðinni afstöðu og stuðningi við fyrirætlanir forsætisráðherra varðandi skipan Stjórnarráðsins og það getur auðvitað ekki verið í bága við stjórnarskrána eins og ég skil það. (Gripið fram í: … forsætisráðherra.) Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu að þingið lýsi afstöðu sinni til þess máls.

Hitt getur svo áfram verið stúdía hvort þau mál eiga yfirleitt að koma til kasta (Forseti hringir.) Alþingis, þ.e. skipan Stjórnarráðsins í ráðuneyti, fjöldi þeirra o.s.frv. Það er sjálfstætt mál sem er áhugavert að velta fyrir sér.