140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:27]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svarar ekki spurningu minni. Mér finnst hv. þingmaður vera uppteknari af því að nefna hér ákveðna virkjunarkosti í þessu sambandi og staðsetningu þeirra en af grundvallaratriðinu sem ég spyr um. Þegar það kemur upp sem kallast getur lögfullur vafi, hvort sem það á við neðri hluta Þjórsár eða miðhálendið eða hvaða aðra kosti sem eru til umfjöllunar í rammaáætlun, og þegar bent er á ákveðin atriði sem verkefnisstjórnin hefur sannarlega ekki tekið afstöðu til, hvað telur þingmaðurinn þá að Alþingi beri að gera?

Við erum hér kjörnir fulltrúar sem tökum við þingsályktunartillögu eftir löglegt og fyrir fram ákveðið ferli sem fylgt hefur verið í hvívetna og nú er það þingsins að taka afstöðu til þingsályktunartillögunnar þar sem meðal annars ráðherrarnir hafa tekið þarna til athugunar ákveðna kosti á grundvelli þess að upplýsingar skorti um atriði sem afstaða var ekki tekin til í verkefnisstjórninni. Og alveg burt séð frá því hvaða kosti þar er um að ræða, hvernig er með nokkrum hætti hægt að réttlæta það að þingið taki ekki mark á slíkum breytingum eða taki ekki til greina að yfirvega eða bíða um einhvern tiltekinn tíma áður en endanleg ákvörðun er tekin um virkjun tiltekinna kosta í þessu sambandi? Við erum auðvitað ekki að tala um að setja einhverja kosti í verndarflokk, við erum einungis að tala um að þessir kostir njóti vafans um tiltekinn tíma þar til fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir.