140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór mjög vel yfir málið þó að hún hefði kannski ekki þann tíma sem hún þyrfti til að fara vel yfir alla vinnuna vegna þess að hv. þingmaður sat í verkefnisstjórninni og þekkir þetta mál mjög vel.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Ég ætla að halda mig við neðri hluta Þjórsár og þær virkjanir sem eru settar núna í biðflokk en voru í nýtingarflokki og spyr: Hver er skoðun hv. þingmanns á því þegar framkvæmdarvaldið grípur svona inn í þá niðurstöðu sem var skilað inn frá verkefnisstjórninni? Og ég spyr hv. þingmann hvort þá mætti efast um niðurstöðu faglegrar skoðunar þeirra stofnana sem fjalla um þetta mál. Geta efasemdirnar þá ekki verið í hina áttina líka? Það væri mjög óheppilegt.

Verkefnisstjórnin vinnur þessa faglegu vinnu sem nær þverpólitísk samstaða er um að fara í og síðan er þetta niðurstaðan. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að ferlið sé óeðlilegt, að það skuli vera farið inn í pólitísk hrossakaup tveggja ráðherra til þess að breyta tillögunni? Af hverju er tillögunni frá verkefnisstjórninni ekki einfaldlega skilað óbreyttri inn í þingið? Þar gætu menn tekið efnislega umræðu. Ef ný gögn koma um það getur þingið tekist á við þær upplýsingar og lagt mat á það hvort það vill gera það. Að mínu mati er klárlega um pólitísk hrossakaup að ræða þegar tveir hæstv. ráðherrar taka tillöguna, möndla hana til og koma síðan með hana breytta inn í þingið. Hver er skoðun hv. þingmanns á þessum vinnubrögðum? Ég spyr líka í ljósi þess að hv. þingmaður sat í þingmannanefndinni sem oft er talað um að flutti hér tillögu sem var samþykkt 63:0 um að þingið ætti að fara að starfa sjálfstæðara (Forseti hringir.) fram hjá framkvæmdarvaldinu. Þetta er eitt mál af svo mörgum sem eru í þversögn við þær yfirlýsingar.