140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar. Ég er í sjálfu sér ekki sérfræðingur í tímaröðun orkuframkvæmda en það er ljóst að verið er að hefja virkjun á Þeistareykjasvæðinu og þar liggur þó nokkuð mikil orka. Á Kröflusvæðinu í Bjarnarflagi er líka verið að virkja. Síðan er háhitaholan eða djúpborunarholan sem er við Leirhnjúka, hún gefur mikla möguleika. Mér skilst að þar séu allt að 50 megavött í einni holu sem gerir það að langstærstu jarðhitaholu sem nokkurn tíma hefur verið boruð. Þar eru uppi viss vandamál vegna tæringar og annars slíks en mér skilst að menn séu að komast fyrir það.

Síðan er einni vatnsaflsframkvæmd að ljúka og þarna eru tvær litlar framkvæmdir sem eru annars vegar fyrir vestan og hins vegar í Blöndu. Það er því hitt og þetta í pípunum þó svo að það sé í engu samræmi við þær væntingar sem Íslendingar hafa til orkuauðlindanna.

Sjáum til dæmis Norðlingaölduveitu sem er einn hagkvæmasti kostur sem hægt er að fara í. Það bætir nýtingu á núverandi virkjunum mjög mikið án þess að skerða hlut náttúrunnar, sem ég vil alls ekki gera. Virkjun sem margir hafa horft á er Arnardalsvirkjun. Ég er algjörlega á móti þeirri virkjun og er mjög ánægður með að hún sé í verndunarflokki.

Það er ekki eins og ég vilji bara virkja allt saman og annað slíkt. Ég vil virkja það sem raunhæft er að virkja og (Forseti hringir.) ég held að Þjórsárvirkjanirnar séu til dæmis mjög góður kostur þó svo að ef til vill megi fara fram meiri rannsóknir á neðstu virkjuninni, Urriðafossi.