140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar almennt að í sambandi við vatnsafl verði maður að horfa á það út frá tveimur meginatriðum. Það eru annars vegar rennslisvirkjanir og hins vegar virkjanir sem krefjast þess að gerð séu mikil stíflumannvirki sem hafa mikil umhverfisleg og útlitsleg áhrif í för með sér. Ég lít á rennslisvirkjanir sem algjörlega afturkræfar framkvæmdir, það er ekki flóknara en að brjóta þær bara niður. Það hafa verið rifin hús fyrr hér á Íslandi. Mér eru rennslisvirkjanir ekki þyrnir í augum. Öðru máli gegnir um virkjanir sem byggja á miklum uppistöðulónum. Þar þarf að huga mjög vel að hlutunum.

Í þessari orkuumræðu er síðan annað sem ég tel mjög mikilvægt að tengja inn í og það er dreifikerfið. Ég held að við Íslendingar getum gert miklu betur með dreifikerfið en nú er. Þar getum við náð fram orku sem tapast í kerfinu og þar getum við náð fram miklu betri nýtingu á þeirri orku sem er til staðar. Við þurfum að byggja upp fullkomið dreifikerfi sem er eins og ég sagði endurkræft — það er enginn vandi að rífa niður möstur ef framtíðarkynslóðir vilja það. Ég held að það sé hlutur sem við þurfum að huga að. En með þessar virkjanir í Skagafirðinum, eins og ég segi þá geri ég ekki jafnmiklar kröfur til rennslisvirkjana og til virkjana sem byggja á uppistöðulónum.