140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:59]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil í tengslum við þessa umræðu leyfa mér að byrja á því að nefna við hæstv. velferðarráðherra, sem gegnir raunar störfum hæstv. iðnaðar- og fjármálaráðherra í forföllum hennar, að úrbætur og nýting orkuauðlinda hefur aukið aðgengi allra landsmanna, þar með talið þeirra sem eru í vandræðum með að komast ferða sinna vegna fötlunar. Ég minni hæstv. ráðherra á að fyrir liggur fyrirspurn um málefni fatlaðra og aðgengi þeirra sem lýtur að bifreiðastyrkjum sem er ósvarað. Hæstv. ráðherra tilkynnir mér að ég eigi von á því að svarið sé að koma þannig að ég þakka hæstv. ráðherra hjartanlega fyrir það og vænti þess að það geti greitt úr þeim spurningum sem á okkur hafa dunið, sérstaklega í tengslum við ferlimál fatlaðra.

Ég vil taka það strax fram að sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir byggir á langri sögu. Við sem hér höfum talað af hálfu Sjálfstæðisflokksins höfum undirstrikað það í ræðum okkar að við styðjum heils hugar það ferli sem fór af stað með vinnu við rammaáætlun og lögðum traust okkar á helstu sérfræðinga þjóðarinnar í því verkefni. Þess vegna, eins og komið hefur fram í umræðum um þetta ekki eingöngu á þessum fundi heldur líka í umræðum úti í þjóðfélaginu, þarf gríðarlega mikið að koma til og vera vel rökstutt ef gera á breytingar á þeirri röðun virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin leggur til. Þeir sameiginlegu hagsmunir sem við viljum standa vörð um bera skarðan hlut frá borði ef við horfum til þess að unnið sé í þessum málum á þann veg að dyntir ráði för fremur en fagleg vinna þeirra sérfræðinga sem kallaðir voru til þessara verka.

Ég nefndi það hér áðan að þetta verkefni á sér langa sögu alveg frá árinu 1999 þegar fyrsta verkefnið var sett af stað undir forustu þáverandi iðnaðarráðherra sem skipaði verkefnisstjórn sem starfaði til ársins 2003. Þá tók við svokallaður 2. áfangi þessarar vinnu, í september 2004 hófst hann. Þeim áfanga lauk í maí 2007 en í framhaldinu, í september það sama ár, var vinnan sett af stað aftur og allan þennan árafjölda hefur þetta í raun verið byggt á svipuðum eða sambærilegum grunni. Þetta er gríðarlega umfangsmikil vinna sem hafði það meginmarkmið að komast að faglegri niðurstöðu um hvar ætti að virkja og hvar ætti að vernda. Niðurstaðan átti með öðrum orðum að byggja á vísindalegum gögnum fremur en ólíkum pólitískum og tilfinningalegum skoðunum.

Að þessu hafa unnið fjórir faghópar sem í fyrsta lagi áttu að fjalla um náttúru- og menningarminjar, í öðru lagi um útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi, í þriðja lagi um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og fjórði hópurinn átti að fjalla um orkulindir og hafði það verkefni að skilgreina þá kosti sem fyrir hendi kynnu að vera til að nýta vatnsorku og jarðhita, meta afl- og orkugetu o.s.frv.

Eins og ég gat um var markmiðið með þessari skilgreiningu á vinnunni að hefja verkið yfir pólitískt dægurþras, tilfinningasemi og kjördæmapot. Þá ber svo við að við erum að lenda í þeirri stöðu núna að málið er farið að verða í umræðunni svipað því sem áður var, áður en þessi vinna fór í gang. Við sjáum þess stað, til dæmis í þeim rökstuðningi sem liggur fyrir í þingsályktuninni í mjög umdeildu, viðkvæmu máli sem mikið hefur verið rætt sem eru virkjanir í neðri hluta Þjórsá. Hvaða skoðanir svo sem við höfum á því máli, einstökum virkjunum þar, er gjörsamlega ótækt að þingsályktunartillaga í svo viðamiklum málaflokki byggi á þeim fölsku forsendum, sem ég vil kalla svo, sem settar eru fram í greinargerðinni sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur hér fram.

Í þessari greinargerð segir á bls. 18 varðandi virkjunarkost 31, Urriðafossvirkjun, og tengist þar af leiðandi tveimur öðrum virkjunarkostum, með leyfi forseta:

„Mat á umhverfisáhrifum vegna Urriðafossvirkjunar er frá 19. ágúst 2003 og rennur það úr gildi 19. ágúst 2013, þ.e. verði framkvæmdir ekki hafnar innan þess tíma.“

Þetta er ekki rétt. Þetta stenst hvorki lögin um mat á umhverfisáhrifum né faglegt mat þeirra sem um þessi mál sýsla. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, segir, með leyfi forseta:

„Ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt.“

Þegar leitað var eftir afstöðu skipulagsstjóra til þeirrar fullyrðingar sem felst í greinargerð iðnaðarráðherra og hvort rétt sé að ræða það að umhverfismatið falli úr gildi 2013 þá orðar Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar, þetta þannig, með leyfi forseta:

„Nei, ég mundi ekki orða það þannig. Ég mundi segja sem svo að ef tíu ár líða frá því að úrskurður liggur fyrir þurfi að skoða málið.“

Í þessum orðum felst að það sé leyfisveitandans að óska eftir ákvörðun um það hvort og þá hvers konar endurmat þurfi að fara fram og það liggur einfaldlega fyrir að engin ákvörðun hefur verið tekin í þeim efnum af hálfu Skipulagsstofnunar líkt og skilja má af þeim orðum sem ríkisstjórnin vill færa fram í greinargerð sinni um þetta umdeilda mál. Maður spyr sig hvers vegna þetta sé gert, af hverju þetta er unnið á þann hátt að leitað sé þeirra leiða sem unnt er til að koma í gegn einhverri afstöðu sem ekki byggir á tillögunni sem lögð var fyrir ríkisstjórnina heldur einhverju samráði hinna tveggja pólitísku flokka sem mynda stjórnarmeirihlutann.

Ég álít að þessi aðferð sé í raun sú sem oftar en ekki hefur verið viðhöfð af núverandi ríkisstjórn, þ.e. að leiða pólitískan ágreining og skoðanaskipti þessara tveggja stjórnarflokka fram hjá opinni almennri umræðu. En það er langur vegur frá að það sé ásættanlegt að það sé gert með þeim hætti að færa fram rangar eða falskar forsendur fyrir þeirri tillögu sem lögð er fyrir Alþingi. Það á einfaldlega að draga þessa þætti upp til umræðu alla og takast á um þá og svo ræður einfaldlega meiri hluti atkvæða þeirri niðurstöðu sem kemur út úr því.

Þegar boðið er upp á vinnubrögð sem þessi býður það þeirri hættu heim að öll sú vinna sem lagt hefur verið í á undanförnum árum verði lítils metin og menn fari enn frekar að krukka í þetta. Manni sýnist í fljótu bragði að í þeirri tillögu sem fyrir liggur séu fleiri slík dæmi, það er verið að reyna að miðla málum í pólitískum þrætum á milli stjórnarflokkanna á kostnað þeirrar þekkingar sem fyrir liggur í málinu. Ef þetta eru vinnubrögðin, eins og manni sýnist vera, er alveg ljóst að líftími þeirrar þingsályktunartillögu og rammaáætlunar sem núverandi stjórnarmeirihluti ætlar með þessum aðferðum að lauma í gengum þingið verður ekki lengri en líftími þeirrar sömu ríkisstjórnar. Það er alveg ljóst af þeim orðum sem um þetta mál hafa fallið hér í dag.