140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur talað fyrir því að virkja bæði í vatnsafli og í jarðvarma en það er ekki það eina sem við erum að horfa til að það sé gert í þágu stóriðju. Það er kannski munurinn á þingflokki Sjálfstæðisflokksins og sumum þingflokkum annarra stjórnmálahreyfinga hér á þinginu að við ræðum þó málin í heildarsamhengi. Allir stjórnmálaflokkar hér á landi vilja koma að frekari atvinnuuppbyggingu áfram með einum eða öðrum hætti í alls konar verkefnum.

Ég man til dæmis eftir mjög tilfinningaþrungnum ræðum sumra stjórnarliða hér varðandi möguleikana sem felast í uppbyggingu gagnavera. Það skortir hins vegar á umræðuna hjá þeim sömu þingmönnum að ræða með hvaða hætti sú uppbygging á að eiga sér stað og hvort sem okkur líkar það betur eða verr verður það ekkert gert með öðru en orku. Við höfum ekki, þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, skorast með neinum hætti undan þeirri faglegu áætlun og áherslum sem í þessu verkefni liggja en um leið og við sjáum að menn eru farnir að skjóta sér undan tilteknum þáttum í faglegu mati þá gerum við að sjálfsögðu athugasemdir við það. Það hefur legið fyrir í allmörg ár hvernig niðurstaða í tilteknum þáttum liggur. Samt sem áður er verið að reyna að skjóta sér undan því með mjög ómálefnalegum hætti, eins og ég gat um í ræðu minni áðan og reyndi að rökstyðja. En það þýðir ekki, og það er ósanngjarnt að halda því fram, að þingflokkur sjálfstæðismanna sé að tala fyrir því að menn vaði yfir landið á skítugum skónum og virkja hverja sprænu eða hvern heitan hver sem fyrirfinnst. Umræðan er oft þannig en (Forseti hringir.) reynslan sýnir að sjálfstæðismenn hafa ekki unnið þannig í umgengni við náttúruna.