140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að þetta komi fram því að þetta er sá skilningur sem ég hafði á þessu máli þegar ég var utan þings, í sveitarstjórnum eða áhugamaður um málið innan Framsóknarflokksins. Menn voru búnir að leggja mikið á sig til að koma á fót einhverju ferli sem væri trúverðugt og um mundi ríkja sæmileg sátt — ég ætla ekki að orða það sterkar en svo.

Síðan er tekin sú ákvörðun að taka þarna ákveðna virkjunarkosti og setja þá í eitthvert annað ferli eða frekari skoðun og færa á milli flokka þrátt fyrir að tillögur bæði sérfræðingahópanna og verkfræðistjórnarinnar hafi verið á annan veg. Það er vitanlega athyglisvert að þeir kostir sem verið er að færa til eru þeir kostir sem hvað mestar pólitískar deilur hafa verið um innan þingsins, jafnvel innan stjórnarflokka að því er okkur skilst sem á horfum. Maður veltir fyrir sér hvort það sé tilviljun að þessir kostir séu teknir til hliðar og á þeim forsendum að afla þurfi frekari upplýsinga.

Í jarðhitanum sérstaklega er stanslaus þróun; menn rannsaka, þróa nýjar aðferðir og verða sér úti um betri þekkingu og tækni. Það hlýtur að vera mikilvægt að sama skapi að bíða með alla jarðhitakosti í ljósi þess að ný tækni er notuð við rannsóknir og hitt og þetta.

Það hljómar ótraustvekjandi að hafa farið þessa leið eins og það sé hreint og beint pólitík sem ráði því að þessir þættir eigi að fá sérstaka skoðun.