140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að árnar í Skagafirði fóru jafnvel að renna áður en ég fór þangað í sveit og sýnir nú hversu þetta eru orðnar gamlar ár. Að öðru leyti vil ég segja að þegar málin fóru af stað á sínum tíma árið 1999 gekk öll sú umræða sem fylgdi í kjölfarið út á það að reyna að búa til faglegt mat. Auðvitað vitum við að hið faglega mat er vissulega matskennt að lokum. En menn styðjast samt sem áður við föst viðmið sem menn leiða síðan fram með því að bera saman hagkvæmni, verndargildi og síðan ýmsar aðrar breytur eins og byggðarleg áhrif, áhrif á ferðaþjónustu og slíkt, það ætti að leiða fram ákveðna niðurstöðu. Auðvitað var öllum ljóst að það gat verið matskennt að lokum.

Síðan gerðist það í þessu ferli líka að búið var til það sem menn hafa kallað einhvers konar skoðanakönnun sem raðar þessu upp og hér hafa komið fram ábendingar um að sú aðferðafræði hafi kannski ekki verið alveg hin heppilegasta. Það sem ég vil einfaldlega segja er þetta: Núna er búið að eyðileggja þessa vinnu og þá stöndum við sem eigum að taka faglega afstöðu til málsins, m.a. í atvinnuveganefnd, frammi fyrir því að mikil umræða og upplýsingaöflun af okkar hálfu þarf að fara fram um að minnsta kosti þá virkjunarkosti sem eru álitamál og þar á meðal kunna að vera jökulárnar í Skagafirði.

Við hv. þingmaður þekkjum það að þar er verið að ræða um tvo mögulega virkjunarkosti. Annar var umdeildari en hinn og ég tel óhjákvæmilegt að skoða þessa hluti í því samhengi. Ég veit hins vegar ekki hvernig það gengur í vetur vegna þess að eins og við vitum fékk atvinnuveganefnd ekki mikið veganesti framan af árinu en er núna upp fyrir haus í því að fjalla um hin vitlausu frumvörp í sjávarútvegsmálum og síðan (Forseti hringir.) bætist þetta við. Þetta er ekki til þess fallið að auka trúverðugleika þeirrar vinnu sem fram undan þarf að vera.