140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég get tekið undir velflest af því sem þar var sagt, nánast allt.

Stöðnunarstefna var hugtak sem þingmaðurinn nefndi og ég get svo sannarlega tekið undir það. Ég held að nýjasta dæmið séu fréttirnar frá Blönduósi þar sem fyrirhugað gagnaver var slegið af fyrr í vikunni einmitt vegna þessarar — og ég vil bara gera þetta hugtak að mínu hér — stöðnunarstefnu ríkisstjórnarinnar. Þó er þar ekki um að ræða þá vondu stóriðju sem hvergi má ræða eins og til dæmis áliðnaðinn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um þessa rammaáætlun, hvort hann telji að hún lifi þessa ríkisstjórn af. Segjum að rammaáætlun yrði samþykkt óbreytt og ný ríkisstjórn kæmi til valda, og segjum að hv. þingmaður ætti aðild að þeirri ríkisstjórn: Telur hv. þingmaður að áætlunin mundi lifa stjórnarskiptin af?

Síðan vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja trú á því að rammaáætlun muni taka breytingum í þinginu. Er það ekki þannig, eins og hvíslað hefur verið á göngum þingsins, að búið sé að geirnegla þetta milli flokkanna? Það tók nú ekki svo lítinn tíma. Er einhver von til þess að annar hvor flokkurinn gefi eitthvað eftir? Er það ekki bara annaðhvort þetta eða ekki sem við stöndum frammi fyrir?