140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[16:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að svara seinni hluta fyrirspurnarinnar. Ég er dálítið hræddur um, miðað við hversu langan tíma þetta hefur tekið og verið erfitt innan stjórnarflokkanna, að ómögulegt verði að gera nauðsynlegar breytingar. Enda hefur það komið fram í máli nokkurra stjórnarliða að líf ríkisstjórnarinnar sé undir. Ríkisstjórnin hefur sýnt og sannað á undanförnum árum að hún er tilbúin að gera hvað sem er, eða í sumum tilvikum sleppa hverju sem er, til að halda ríkisstjórninni gangandi. Þetta snýst í rauninni fyrst og fremst og númer eitt, tvö og þrjú um að halda lífi í ríkisstjórninni. Árangurinn af starfinu virðist vera aukaatriði. Þar af leiðandi er ég ekki of bjartsýnn á breytingar.

Hins vegar efast ég um og raunar trúi því bara ekki að allir stjórnarliðar geti fallist á það far sem þetta mál er komið í. Þeir munu væntanlega reyna að hafa einhver áhrif á málið eða jafnvel koma í veg fyrir að það nái í gegn eins og að er stefnt. En hvar stöndum við þá? Þá erum við ekki með neina rammaáætlun. En kannski skiptir það ekki öllu máli.

Þá kem ég að svarinu við fyrri hluta fyrirspurnarinnar. Kannski skiptir það ekki öllu máli vegna þess að það má vera alveg ljóst að engin önnur ríkisstjórn mundi standa að málum eins og þessi ríkisstjórn hvað varðar rammaáætlun. Það byggi ég bara á því að þetta mál er búið að vera í vinnslu í ágætissátt, að því ég taldi, í 13 ár þangað til að þessi sérkennilega stjórn tók við völdum. Þá hlýtur að vera óhætt að álykta að þegar hún fer frá völdum taki skynsemin aftur við og menn breyti um stefnu hvað þessi mál varðar.