140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

landsdómur.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar lögin um landsdóm og um ráðherraábyrgð voru sett á sínum tíma var þingmönnum að sjálfsögðu fullkunnugt um það að í framtíðinni kynni að skapast sú hætta að á vettvangi stjórnmálanna mundi aukast svo mjög harkan að þingmenn stæðu frammi fyrir þeirri freistingu að kalla fram málshöfðun yfir pólitískum andstæðingum sínum. Þá voru liðin um það bil 50 ár frá því að ákvæðið hafði fyrst ratað inn í stjórnarskrá og menn sáu ekki fyrir sér frekar en hafði gerst á fyrri hluta síðustu aldar að ráðherra yrði ákærður í framtíðinni. En það var einmitt það sem gerðist í landsdómsmálinu yfir Geir H. Haarde.

Lögin voru hins vegar sögð nauðsynleg, m.a. vegna þess að menn gátu eftir rannsókn hafa komist að þeirri niðurstöðu að um hreint ásetningsbrot væri að ræða. Við slíkar aðstæður var það óumdeilt í þinginu að ég hygg að full ástæða væri til að efna til dómsmáls. Þegar menn beita hins vegar matskenndum ákvæðum eins og gerðist í þessu máli, reyndar með svo (Forseti hringir.) veikum mætti að allir 15 dómararnir sýknuðu, erum við komin út á allt aðrar brautir.