140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

landsdómur.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er að mörgu leyti hægt að vera sammála hv. þingmanni um afstöðuna til landsdómslaganna. Þau eru alls ekki heppileg og hefði átt að vera búið að breyta þeim fyrir löngu. En við skulum líka muna hvernig aðdragandinn að þessu máli var. Þegar hrunið skall yfir í október 2008 man ég ekki betur en að formenn allra flokka hafi sameinast um það í þingsályktunartillögu að skipuð yrði sérstök rannsóknarnefnd. Í greinargerð með þeirri tillögu stóð að hlutverk Alþingis væri að meta hvort tilefni væri til að ráðherra sætti ábyrgð fyrir mistök eða vanrækslu í starfi. Þetta var samþykkt á Alþingi þannig að þingmenn voru auðvitað nauðbeygðir til að fara eftir landsdómslögum og vilja Alþingis í þessu efni. Ég er alveg viss um að hver einasti þingmaður hér inni var settur í mjög erfiða stöðu í því efni að þurfa að meta hvort ákæra ætti félaga sína (Forseti hringir.) á þingi þannig að ég ítreka það sem ég sagði, ég vona að við getum breytt þessum lögum sem fyrst.