140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[13:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á miðvikudaginn í síðustu viku gerðust þau fádæmi að hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að þingsályktunartillaga um breytingu á Stjórnarráði Íslands væri í andstöðu við stjórnarskrána. Í millitíðinni hefur það gerst að landsdómur hefur fundið fyrrverandi forsætisráðherra sekan um að hafa ekki farið að stjórnarskránni. Í tilviki núverandi hæstv. forsætisráðherra liggur hins vegar fyrir alveg klár og skýr ásetningur og vissa af hennar hálfu um að tillagan sem hæstv. ráðherra mælti fyrir sé ekki í samræmi við stjórnarskrána. Látum efnisatriði liggja á milli hluta, hvort þessi fullyrðing hæstv. ráðherra sé rétt eða röng. Það sem liggur fyrir er þetta mat hæstv. ráðherra á eigin tillögu.

Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra í ljósi dómsins í gær hvort þá sé ekki ljóst að hæstv. forsætisráðherra muni draga þessa þingsályktunartillögu til baka og koma þannig í veg fyrir að Alþingi verði sett í þá stöðu að taka afstöðu til máls sem hæstv. forsætisráðherra sem flutti málið telur í andstöðu við stjórnarskrána.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi uppi áform um að breyta lögum um Stjórnarráðið þannig að þau samræmist þá því ákvæði stjórnarskrárinnar sem hún telur að núverandi fyrirkomulag sé brotlegt við.

Í þriðja lagi, sem er ákaflega mikilvægt, spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt málið þannig í ríkisstjórn, og séð til þess að það væri sömuleiðis gert í stjórnarflokkunum, að það væri mat hæstv. forsætisráðherra að þetta mál væri í andstöðu við stjórnarskrána.