140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[13:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég vil í fyrsta lagi segja, virðulegi forseti, út af þessu máli að það að tengja það við hrunið sem þjóðin varð fyrir 2008 og landsdómsmálið í tengslum við það er alveg fjarstæða. Það er fráleitt að tengja það með einum eða öðrum hætti við það mál sem við vorum að ræða sem er breyting á Stjórnarráðinu.

Það sem ég vakti athygli á er að sú málsmeðferð að fara með málið fyrir þingið, þ.e. breyting á verklagi innan Stjórnarráðsins, gengur lengra en stjórnarskráin segir til um. Með þeirri breytingu sem var gerð á stjórnarráðslögunum á síðasta þingi, þar sem einmitt átti að undirstrika þá stöðu sem er í stjórnarskránni, að það á ekki að þurfa að fara með þessi mál fyrir þingið þó að það hafi verið gert í gegnum árin, átti að koma þeirri breytingu í gegn að þetta yrði eins og hjá öðrum þjóðum. Hjá öllum Norðurlandaþjóðunum nema Finnum þarf ekki að fara með verklag í Stjórnarráðinu fyrir þingið. Þannig er það í mörgum Evrópulöndum líka.

Það var samþykkt á síðasta þingi að heiti og fjöldi ráðuneyta mundi fara fyrir þingið í formi þingsályktunartillögu og það vorum við að uppfylla. Með þessu gengum við raunverulega lengra en stjórnarskráin segir til um og það var það sem ég var að koma á framfæri í ræðu minni í síðustu viku.