140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[13:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að snúa ekki út úr og ég bið hæstv. forsætisráðherra að sýna ekki forherðingu í þessu máli. Það sem hæstv. forsætisráðherra sagði var að þetta mál væri í andstöðu við stjórnarskrána, ekki að það gengi lengra en stjórnarskráin. Er hæstv. forsætisráðherra núna að draga í land? Er hæstv. forsætisráðherra að segja okkur að það hafi ekki verið nein meining í því sem hæstv. ráðherra sagði á miðvikudaginn var? Ég margspurði hæstv. forsætisráðherra í andsvörum eftir þá umræðu og hæstv. forsætisráðherra kaus ekki að leiðrétta þessi orð sín þá.

Það sem hér er einfaldlega um að ræða er að ég spurði hæstv. forsætisráðherra þriggja einfaldra spurninga. Hæstv. forsætisráðherra kaus að svara engri þeirra. Er ekki hugmyndin að draga til baka þessa tillögu sem gengur þvert á stjórnarskrána að mati hæstv. ráðherra? Er hæstv. ráðherra að undirbúa lagabreytingu til að setja að minnsta kosti lagalega stoð undir það fyrirkomulag sem á að ríkja varðandi breytingar á Stjórnarráðinu? Ég spyr hæstv. ráðherra að nýju: Kynnti hæstv. forsætisráðherra það fyrir ríkisstjórn og var það kynnt fyrir stjórnarflokkum (Forseti hringir.) að það væri mat hæstv. forsætisráðherra að þetta mál væri í andstöðu við stjórnarskrá Íslands?