140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

breytingar á Stjórnarráðinu.

[13:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórninni er fullkunnugt um það hvernig stjórnarskráin er í þessu efni, það er óþarfi að fara með þetta fyrir þingið þótt það hafi verið gert. Það er ekki í samræmi við stjórnarskrána (Gripið fram í.) og svarið við spurningu um hvort ég ætli að draga frumvarpið til baka o.s.frv. er einfaldlega nei. Það er svarið við báðum spurningunum. Ef ég hef notað orðið andstætt er það ekki kórrétt vegna þess að það sem ég er að segja er að þetta er ekki í samræmi við stjórnarskrána. 15. gr. hennar er mjög skýr og þetta er ekki í samræmi við hana. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu í gegnum tíðina hafa ekki verið í samræmi við stjórnarskrána. Það var það sem ég var að koma á framfæri.