140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

mannréttindabrot í Kína.

[13:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Í síðustu viku kom forsætisráðherra Kína hingað til lands í boði hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þó að hún hafi ekki átt frumkvæði að því boði. Því miður gerðist það sorglega að þingflokksformenn og forseti þingsins höfnuðu því að Alþingi fengi að álykta og ræða um mannréttindabrot í Kína í aðdraganda þessarar heimsóknar og því var það ekki gert.

Forsætisráðherra hefur sjálf sagt í fjölmiðlum að hún hafi rætt mannréttindamál við kínverska forsætisráðherrann en ekki útskýrt nákvæmlega um hvað þau ræddu. Spurningar mínar til hæstv. forsætisráðherra eru því þessar:

Um nákvæmlega hvaða mannréttindabrot ræddi forsætisráðherra? Ég mun gefa nokkur dæmi:

Var rætt um gríðarlegan fjölda dauðarefsinga sem eru við meira en 50 brotum í Kína og sennilega heimsmet í aftökum? Var rætt um pyndingar á föngum? Var rætt um fangelsanir vegna pólitískra skoðana án dóms og laga? Var rætt um kúgun kínverskra stjórnvalda gegn tíbesku þjóðinni? Var rætt um 60 ára hernám Kína á Tíbet? Var rætt um bann við verkalýðsfélögum? Var rætt um eitthvað annað af þessu en hluti sem koma til dæmis fram í yfirlýsingu Íslandsdeildar Amnesty International varðandi þessa heimsókn sem var mjög ítarleg og send út í tilefni heimsóknarinnar?

Í framhaldinu: Styðst hæstv. forsætisráðherra yfirleitt við upplýsingar um mannréttindamál, svo sem skýrslur Amnesty International, í samskiptum sínum við erlenda ráðamenn?