140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

mannréttindabrot í Kína.

[13:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir allgóð svör, ekki nægilega nákvæm samt. Ég fagna því að forsætisráðherra segist hafa rætt um dauðarefsingar við kínverska forsætisráðherrann. Dauðarefsingar og aftökur eru með því viðurstyggilegasta sem stjórnvöld í nokkru landi geta tekið sér fyrir hendur og það er mikið fagnaðarefni ef þeim skilaboðum er komið á framfæri við alla þá sem heimsækja land okkar.

Ég tel að Íslendingar, íslenska þjóðin og þingið, eigi skilyrðislaust heimtingu á að fá að vita skýrar hvaða önnur mannréttindabrot voru rædd. Nú er verið að bjóða upp á fjárfestingarsamninga við Kína, stórfelldar fjárfestingar á Grundartanga. Það er verið að gera gangskör að því að selja Kínverjum hluta af landinu í einhverjum ævintýralegum samningum á Norðausturlandi og það er lágmark að Alþingi og þjóðin fái að vita nákvæmlega um afstöðu Íslands til mannréttindabrota í Kína og svör kínverska stjórnvalda (Forseti hringir.) við þeim ábendingum Íslendinga. Við erum að fara að fá hingað inn fullt af fólki frá Kína með fjármuni og við þurfum að fá að vita við (Forseti hringir.) hvers konar fólk við ætlum að eiga viðskipti.