140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

fyrirætlaðar viðskiptaþvinganir ESB.

[13:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins staðfesti í gær það sem við vissum reyndar, að framkvæmdastjórnin og Evrópuþingið ynnu að því að setja reglur til að refsa mætti þeim sem veiddu meira af makríl en hún taldi ráðlegt. Við ræddum þetta meðal annars á sameiginlegum fundi ESB og íslenskra þingmanna fyrir páska þannig að þetta kemur okkur ekki á óvart og við höfðum þessi reglugerðardrög í fundargögnum okkar.

Á Rás 2 var í gær viðtal við hæstv. utanríkisráðherra þar sem mér þótti hann tala ansi léttvægt um þessar aðgerðir. Hann lýsti því, með leyfi forseta, sem það væri „náttúrlega tómur vitleysisgangur í þessum þingmönnum“ að fara fram með þetta í þinginu og sagði það brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar.

Einnig sagði hæstv. ráðherra í þessu sama viðtali að hann gerði ekki ráð fyrir því að þetta yrði nokkru sinni samþykkt. Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann sé enn þeirrar skoðunar eftir að það kom óyggjandi fram, reyndar sem við vissum, að þetta er tillaga frá framkvæmdastjórninni sem lögð er fyrir Evrópuþingið og er til umfjöllunar í sjávarútvegsnefndinni. Telur hæstv. ráðherra enn þá að þetta verði aldrei nokkru sinni samþykkt? Telur utanríkisráðherra sem sagt eftir að forseti framkvæmdastjórnarinnar staðfesti þessar fyrirætlanir að þær muni ekki ná fram að ganga innan Evrópusambandsins? Hvað á ráðherrann við þegar hann talar í fjölmiðlum um vitleysisgang í þessum þingmönnum Evrópuþingsins?