140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

lengd þingfundar.

[14:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér verða greidd atkvæði um það hvort þingfundir geti staðið lengur en þingsköp segja til um. Það vill svo til að í dag er þriðjudagur þannig að þingsköp leyfa lengri fund, allt til miðnættis. Er ekki nóg, virðulegi forseti, að ætla okkur að ræða þingmál í dag til miðnættis þegar löng og ströng vika er fram undan? Nefndafundir hefjast kl. 8.30 í fyrramálið og það er sífellt talað um að nú skuli vanda til verka, nú skuli bæta vinnubrögðin og tryggja að sú lagasetning sem hér fer fram verði sem allra best úr garði gerð.

Ég mótmæli því, frú forseti, að það sé ætlun forseta að fara inn í nóttina ótilgreint algjörlega að ástæðulausu og ég minni á að það eru þó nokkrir þingdagar eftir af þessu þingi. (Forseti hringir.) Svo er til nokkuð sem heitir forgangsröðun. Ef ríkisstjórnin heldur að hún komi ekki öllum sínum málum í gegn er hægast að ákveða hvaða mál ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á að klára (Forseti hringir.) til að við getum unnið hér á sómasamlegan hátt.