140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og það var ágætlega upplýsandi. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi skoðað hinar virkjanirnar sem lenda jafnframt í biðflokki við þessa þingsályktunartillögu, þ.e. Hágönguvirkjanir og Skrokköldu, þar sem hv. þingmaður hefur kynnt sér virkjunarmál mjög ítarlega.

Aðeins aftur að Þjórsárvirkjununum. Það er ljóst að þær hafa allar lent í nýtingarflokki í báðum áföngum rammaáætlunar. Þess vegna er mjög athyglisvert að eftir að allir helstu sérfræðingar okkar á þessu sviði hafa legið yfir því í mörg ár — smíðuð hefur verið aðferðafræði til að reyna að komast að niðurstöðu um það hvað er best bæði fyrir náttúruna og eins fyrir íslenska þjóð með tilliti til atvinnumöguleika, nýtingar o.s.frv. Í ljósi þess að í báðum áföngunum raðast þessir kostir í nýtingu þá er mjög sérkennilegt að ráðherrar í ríkisstjórninni geti síðan tekið þær niðurstöður og raðað þeim upp eftir sínum hentugleikum og að því er virðist aðallega með tilliti til þess hvort ríkisstjórnin lifir eða deyr.