140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef kynnt mér þá kosti sem lenda í biðflokki og hef svo sem ekkert meira um Skrokkölduvirkjun að segja frekar en kannski aðrar virkjanir sem fara í biðflokkinn.

Ég benti á það í ræðu minni að þetta er raunverulega grimmasta birtingin á því hvernig pólitíkin getur haft áhrif á faglega vinnu, því að eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á röðuðust þessir virkjunarkostir í Þjórsá í nýtingarflokk í báðum skýrslum rammaáætlunar, en þetta eru staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir.

Vinstri grænir eru í ríkisstjórn og þeir virðast ætla að halda og hanga á umhverfismálunum í staðinn fyrir að hafa gefið eftir umsóknarferlið að Evrópusambandinu. Hv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, virðist ekki ætla að slá af neinu varðandi ESB-umsóknina vegna þess að hann hefur ákveðið að láta umhverfismálin sitja skör hærra. Líklega er hann Evrópusambandssinni sjálfur og getur einhvern veginn réttlætt þetta með sjálfum sér á þennan hátt. En eins og ég fór yfir í ræðu minni og þarf ekki að taka fram aftur er þetta stefna Vinstri grænna, að friða Þjórsá. Margar innblásnar ræður hafa verið fluttar bæði héðan úr ræðustól og einnig í kosningabaráttu hjá þeim á kosningafundum að staðið skyldi vera í ístöðin með það.

Frú forseti. Það væri óskandi að staðið hefði verið við fleiri kosningaloforð en akkúrat umhverfismálin og Þjórsá hjá þessum stjórnmálaflokki sem kennir sig við umhverfisvernd og andstöðu sína við ESB, en (Forseti hringir.) sum kosningaloforð er greinilega auðveldara að svíkja en önnur.