140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Í þessu andsvari við mig var raunverulega dregið saman það sem ég sagði í ræðu minni, að faglegri vinnu er varpað fyrir róða vegna valdagræðgi núverandi ríkisstjórnar. Það segir okkur að þessi ríkisstjórn tekur það að halda völdum fram yfir þjóðarhag. Og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn tekur eigin völd fram yfir þjóðarhag því að eins og ég kom til dæmis inn á í framsöguræðu minni, voru sams konar vinnubrögð notuð varðandi fiskveiðistjórnarfrumvarpið. Þar hafði náðst fullkomin sátt á milli aðila, leggja átti fram fiskveiðistjórnarfrumvarpið í þjóðarsátt, í sátt allra flokka á þingi, en hæstv. forsætisráðherra vill hafa málin upp í loft, að minnsta kosti hér í þinginu, í stað þess að fara með þau fram í friði og því fór sem fór með sjávarútvegsfrumvarpið.

Eins er með þetta mál. Fleiri ára vinna með okkar færustu sérfræðingum, okkar besta fólk kallað að vinnunni og það var komin niðurstaða í málið. Rammaáætlun var afskaplega vel unnin og alveg til fyrirmyndar hvernig var staðið að henni og búið að fara með hana marga hringi í kringum landið, ef svo má segja, þingflokkarnir höfðu fengið kynningu á málinu og mikil sátt hafði náðst um þessi mál. En nei, þá þurfti þessi ríkisstjórn sem þykist ráða hér öllu að koma með krumluna inn í áætlunina og breyta henni, til þess eins að halda ríkisstjórninni lifandi, til þess eins að Vinstri grænir gætu sagt: Sko, við friðuðum Þjórsá og ætlum að standa vörð um Þjórsá. Þetta kalla ég að fara gegn þjóðarhag, frú forseti.