140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og verð að taka undir með honum í velflestu því sem þar kom fram. Ég geri ráð fyrir því að sökum tímaskorts hafi hv. þingmaður ekki rætt mikið um Hagavatnsvirkjun sem ég veit að þingmaðurinn gjörþekkir sem fyrrum sveitarstjórnarmaður á því svæði sem um ræðir. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann væri sammála því að virkjun þar sem verið er að endurvekja stöðuvatn sem var þar áður fyrr frá náttúrunnar hendi yrði sett í biðflokk.

Í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem við ræðum nú er rökstuðningurinn fyrir þessu sagður þessi, með leyfi forseta:

„Hagavatnsvirkjun var raðað í biðflokk í þeim drögum sem send voru til umsagnar 19. ágúst 2011. Í umsagnarferli þingsályktunartillögunnar bárust nýjar upplýsingar þar sem sérstaklega er komið inn á jarðvegsfok og áhrif á ferðaþjónustu.“

Þær umsagnir sem þarna er verið að ræða um eru frá sveitarstjórnunum á svæðinu, sveitarfélaginu Bláskógabyggð, Landgræðslunni, ferðamálafulltrúa Árnessýslu og landeigendum á Úthlíðartorfu og ég verð að segja eftir að hafa skoðað þær umsagnir að þær eru allar jákvæðar í garð þessarar virkjunar. Ég mundi gjarnan vilja heyra álit hv. þingmanns, sem einnig á sæti í atvinnuveganefnd og mun fjalla um þetta, hvort hann muni beita sér fyrir því að þessi virkjun verði færð upp í nýtingarflokk.