140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[14:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og er sammála því sem þar kom fram. Hann nefndi ástæður sem nefndar voru í fjölmiðlum þegar þingsályktunartillagan um Hagavatnsvirkjun og færslu hennar úr bið í nýtingu kom fram. Ég bið hv. þingmann að fara aðeins betur yfir ástæður andstöðunnar. Eftir að hafa kynnt mér málið, lesið umsagnirnar og skoðað þau umhverfisáhrif sem af þessari virkjun yrðu sé ég einungis jákvæð umhverfisáhrif, minnkun á sandfoki, aukningu á uppgræðslu og fögnuð ferðaþjónustunnar. Ég skil ekki af hverju þessi virkjun hefur lent þarna og vil að endingu spyrja hv. þingmann hvort við getum verið bjartsýn um að með þessum rökum verði hægt að hreyfa þetta til. Hversu hörð er andstaðan að mati þingmannsins?