140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:07]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Tjónið sem íslenskt samfélag verður fyrir til lengri tíma og til langrar framtíðar er náttúrlega það ef farið er fram af offorsi en ekki yfirvegun og þekkingu. Um það á einmitt þessi vinna að fjalla.

Þá langar mig að spyrja í framhaldinu nokkurra spurninga. Hv. þingmaður nefnir hér Hagavatnsvirkjun, er það ekki mun róttækari aðgerð, er ekki hv. þingmaður sammála mér um að það sé mun róttækari aðgerð að taka virkjunarkost og setja hann annaðhvort í nýtingu eða vernd en að setja tiltekinn kost í biðflokk þar sem hann á að fá betri og ítarlegri yfirferð einmitt til að hin endanlega niðurstaða byggist á þekkingu og upplýsingum?

Þá kemur aftur að því hvað sé faglegt og hvað sé pólitískt. Er það rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður hefði talið það faglega niðurstöðu ef hæstv. ráðherrar hefðu lagt þessa tillögu fram óbreytta frá verkefnisstjórn og niðurstöðu faghópanna og röðunina sem þar fór fram? Er það hið faglega verk? Þannig skil ég hv. þingmann.

Að lokum um háhitasvæðin. Þar er ég hjartanlega sammála honum, þar vantar einmitt miklu meiri þekkingu og upplýsingar. Er ekki hv. þingmaður sammála mér um að (Forseti hringir.) þar eigum við að fara fram af mun meiri varfærni en hér er lagt til?