140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég tek mið af því sem fram kemur hjá hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur settum við alla nýtingarkosti í bið um ókomna tíð vegna þess að þetta væri alltaf svo stór ákvörðun að taka og þá yrði biðstaðan endalaus. Ég verð að segja eins og er um offorsið sem mundi valda hér gríðarlegu tjóni væntanlega á umhverfi landsins, sem ég býst við að þingmaðurinn hafi verið að meina, að ég kannast ekki við það. Hér er faglegt ferli sem var sett af stað og kostir flokkaðir í vernd eða nýtingu. Offorsið felst kannski í því að vilja ekki hafa neinn einasta kost í nýtingarflokki. Þá felst offorsið og tjónið í því að fólk flyst úr landi, heil atvinnugrein hverfur, öll hennar tæki og tól eru flutt út. Við getum verið sammála um að hún hafi verið orðin of stór en það er óþarfi að leggja hana í rúst. Það er viturlegra að fara fram af skynsemi, virkja þegar okkur finnst það skynsamlegast til að skapa atvinnu í landinu og nýta þannig náttúruauðlindirnar eins og við höfum gert og komið okkur út úr hverri einustu kreppu hingað til. En við þurfum kannski nýja ríkisstjórn til að komast út úr þessari.