140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:21]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Aðdragandinn að þessu máli var á þverpólitískum nótum á sínum tíma þar sem allir höfðu aðgang að því, allir komu að þessari vinnu og kostunum var raðað upp. Síðan fer málið til ríkisstjórnarinnar og hefur verið þar núna í fimm, sex mánuði með ákveðnum áorðnum breytingum eins og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu.

Þetta plagg mun liggja til grundvallar því hvaða framkvæmdir verður ráðist í á næstu árum, þ.e. hvaða virkjunarmöguleikar og virkjunarkostir verða settir í svokallaðan orkunýtingarflokk. Sú töf sem orðið hefur á þessu máli í fimm, sex mánuði vegna vinnu í ríkisstjórninni og átaka sem þar hafa verið um einstaka orkunýtingarkosti — mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað hann teldi að sú töf ein og sér í ljósi þess atvinnuleysis sem við erum að glíma við, í ljósi þess að við horfum upp á fólk flytjast brott af landinu og annað því um líkt, lítið er að gerast hjá verktökum og svona mætti áfram telja hafi kostað ríkissjóð og þjóðarbúið í glataðri verðmætasköpun og jafnvel í brottflutningi fólks af landinu.