140. löggjafarþing — 87. fundur,  24. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[15:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Þær fréttir bárust frá Blönduósi í lok síðustu viku að gagnaver hefði þar verið slegið af og það fyrirtæki sem var að skoða að setja þar upp gagnaver hefði ákveðið að setja starfsemi sína frekar upp í Norður-Ameríku, einkum og sér í lagi vegna pólitískrar óvissu. Það var ekki vegna þess að hér í landinu væru gjaldeyrishöft. Það var ekki vegna þess að hér í landinu hefði orðið hrun. Það var ekki vegna þess að hér í landinu væri ekki hæft starfsfólk. Það var ekki vegna þess að ekki væri til orka á svæðinu þarna. Það var vegna pólitískrar óvissu og vegna þess að svo erfitt var að fá svör frá ríkisstjórninni og átta sig á því hvert hún stefndi hverju sinni því að breytingar voru daglegt brauð.

Ég vil líka taka undir að það er mikið áhyggjuefni þegar við horfum til að mynda upp á að nú í byrjun þessa árs varð stórt verktakafyrirtæki gjaldþrota. Öll þau tæki sem þar voru eru núna á leið suður til Reykjavíkur eða á Reyðarfjörð. Þar verður þeim öllum skipað út og þau flutt úr landi. Það er gríðarlega mikið bæði af tækjum og verkþekkingu sem við erum að tapa úr landi á þessum árum. Það er þess vegna mjög mikilvægt að flýta allri vinnu við þetta plagg og allan grunninn að orkunýtingunni.

Mig langaði að spyrja af því hv. þingmaður fór yfir bæði einstaka virkjunarkosti og áhrifin í ræðu sinni, einkum og sér í lagi á kjördæmi hv. þingmanns, hvort hún telji að í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að breytingum á þessu plaggi, án samráðs við alla stjórnmálaflokka þar sem þetta var ekki gert í víðtækri sátt, að þessi rammaáætlun verði mjög langlíf þegar staðið er þannig að málum og hvort hv. þingmaður telji að þetta sé ekki til þess fallið að þessu plagg verði bara breytt af handahófi af ríkisstjórnum í byrjun hvers kjörtímabils. Náum (Forseti hringir.) við þá þeim markmiðum sem við settum okkur upphaflega með því að fara af stað í að vinna áætlun (Forseti hringir.) sem þessa?